Nú er nýlokið heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem að þessu sinni var haldið í Helsinki í Finnlandi. Þrjú heimsmet féllu á mótinu en sem fyrr var enginn nálægt því að slá „vafasöm“ heimsmet sem sett voru í skugga lyfjamisnotkunar á 9. áratug síðustu aldar.
Fyrir 2 árum síðan, þegar heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum var haldið í París í Frakklandi, ritaði höfundur þessa pistils pistil sem fjallaði um það hversu langt frjálsíþróttamenn nútímans væru frá því að slá ýmis heimsmet sem sett voru á 9. áratug síðustu aldar. Er þar aðallega um að ræða heimsmet í kvennaflokki, t.d. í 100, 200 og 400 metra hlaupi, 800 metra hlaupi, 4×100 metra hlaupi, 4×400 metra hlaupi, 100 metra grindarhlaupi, langstökki, hástökki, kúluvarpi, kringlukasti og sjöþraut. Fjallaði pistillinn um það að mjög margt benti til að met þessi hefðu verið sett með aðstoð örvandi efna, en vegna ónógrar vísindalegrar þekkingar og/eða lélegs eftirlits hefði ekki komist upp um strákinn Tuma.
Nú tveimur árum síðar þokast kvenkyns afreksmenn á frjálsíþróttasvæðinu ekkert nær þessum metum og eru raunar að sumu leyti fjær þeim nú en oft áður. Sigurtímar í hlaupagreinum eru t.a.m. mun síðri en þessi met.
Á HM í Helsinki voru sett heimsmet í þremur greinum, þ.e. spjótkasti kvenna, stangarstökki kvenna og 20 km göngu kvenna. Staðan er sú í spjótkasti kvenna að þar er „heimsmetið“ í raun aðeins besti árangur frá árinu 2000 en þá var spjóti kvenna breytt og þyngdarpunkturinn færður. Fyrir þann tíma var gildandi heimsmet í greininni frá 9. áratugnum. Um stangarstökk kvenna er það að segja að þar er um að ræða tiltölulega „nýja“ keppnisgrein, sem ekki var í boði þegar „dópmetin“ voru sett á 9. áratugnum.
Hugmyndir hafa komið fram um að ógilda þessi gömlu heimsmet en þær hafa þó ekki náð fram að ganga. Á meðan svo er munu frjálsar íþróttir alltaf standa í skugga þeirra, og er það miður, enda vinsælt sport, sem hefur alla burði til að verða mun vinsælla og með meiri peningaveltu en nú er.
Í pistli mínum fyrir 2 árum spáði ég því að sum metanna frá árunum 1980 til 1990 myndu standa mjög lengi, að því gefnu að þau verði ekki felld úr gildi af Alþjóða frjálsíþróttasambandinu. Ég leyfði mér t.d. að fullyrða að árið 2010 verði heimsmetið í 100 metra hlaupi kvenna ennþá 10,49 sekúndur og í eigu Florence Griffith Joyner. Enn eru fimm ár til stefnu.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006