Allir sem hafa átt mikil samskipti við við skattayfirvöld hljóta að velta því fyrir sér hvort forneskjulegt og kæfandi sovétkerfi hafi hreiðrað um sig hér á landi. Um daginn fengu atvinnurekendur bréf frá skattayfirvöldum þar sem þeir voru krafðir um að halda eftir af kaupi þeirra launþega sem skulda opinber gjöld og koma því í hendur Skattmanns.
“Bent skal á að vanræki launagreiðandi að halda eftir af launum starfsmanna ber hann sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess fjár … “ segir meðal annars í bréfinu.
Launagreiðendur geta átt yfir höfði sér refsingu samkvæmt hegningarlögum standi þeir ekki í skilum með skuldir sem eru þeim algjörlega óviðkomandi.
Vefþjóðviljinn spurði réttilega á dögunum hvað kæmi það launagreiðendum við hvort starfsmenn þeirra skulduðu opinber gjöld. Bréfið sýnir líka berlega þann vilja skattayfirvalda og ríkisins að atvinnurekendur eigi að vera einhvers konar innheimtuþrælar hins opinbera.
Hæg eru heimatökin í mínu tilviki en ég ætla ekki að verða við þessari kröfu.
Kerfi sem þetta er fremur ætlað til að þjóna aðgangshörðum embættismönnum og hinu opinbera en almenningi. Margir stjórnmálamenn, svokallaðir kjördæmapotarar, eru ekki síður háðir þessu kerfi því þeirra völd liggja í gegnum skatttekjur ríkisins.
Fagna ber þeim hugmyndum sem nú eru uppi um frekari lækkun tekjuskatts, um eitt prósent um næstu áramót. Nýjar tölur sýna að þrátt fyrir lækkun skatta á þessu og síðasta kjörtímabili hefur álagningin hækkað og tekjur ríkissjóðs aukist hröðum skrefum. Laun skattborgara hafa nefnilega hækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Það hefur sjaldan verið betra árferði fyrir ríkið að innheimta tekjur því aðrar skatttekjur hafa einnig margfaldast, til dæmis tollar, virðisauki og aðrir neysluskattar. Því eru svona hótanir til atvinnurekenda með öllu óskiljanlegar.
Ástæður til skattalækkana eru meiri en nokkru sinni fyrr.
Væri það óskandi að ríkið og sveitarfélögin gengju hægt um gleðinnar dyr í þessu góðæri og bremsuðu sig af í eyðslunni – sem einnig vex hröðum skrefum – því öðruvísi verða þessar skattalækkanir ekki að veruleika þannig að allt fari ekki til andskotans.
- Íslenskir bankar og útlendingar - 22. júní 2021
- Hitnar í ofnunum - 21. apríl 2021
- Kynslóðaskipti í sjávarútvegi - 22. mars 2021