Í sumum borgum erlendis getur það verið erfitt að opna landakort án þess innfæddir stökkvi á mann og bjóði manni aðstoð. Fyrir aðila sem hefur einfaldlega unun af því að skoða landakort, sama þótt hann viti hvar hann sé staddur og hvert hann sé að fara, getur þessi hjálpsemi orðið stundum til trafala.
Sjálfur spyr ég oft um eitthvað vel þekkt kennileiti sem ég hef þegar séð þegar mér er boðin slík aðstoð, hálfpartinn útaf því að ég vilji ekki viðurkenna að mér finnst bara best að ráfa um stefnulaust og hálfpartinn vegna þess að ég vil leyfa fólki að njóta ánægjunnar af því að hjálpa öðrum. Málið vandast reyndar þegar umræddur æsir sig svo yfir hlutverki sínu að hann býðst til að fylgja mér á staðinn. Og þá röltir maður á eftir honum og þykist vera hissa á öllur sem fyrir manni birtist. „Vá, Brandenborgarhliðið! (aftur)“
Í samanburði við aðrar þjóðir eru Íslendingar reyndir frekar sparir á slíka hjálpsemi. Það er raunar örugglega ekki vegna þess að við erum svo „sjálfelsk“ eða að okkur sé illa við útlendinga almennt. Ég held að þetta snúi frekar að þeim samnorræna ótta við að trufla annað fólk með nærveru sinni. Sunnar í álfunni þekkjast allir á stigaganginum með nafni og ónáða hver annan daglega með óvæntum heimsóknum. Hér tala menn kannski við grannann á móti þegar halda á partí. Til að biðjast afsökunar. Á ónæðinu.
Flestir flytja bara í einbýlishús og fara einir á bíl allra sinna ferða. Ótruflaðir og ótruflandi. Og þess vegna vilja fáir hjálpa túristum af fyrra bragði. Af ótta við að trufla þá.
Við Íslendingar mættum samt vera duglegri við að bjóða fram aðstoð okkar. Oft má sjá hjarðir ferðamanna sem klóra sér í sínum erlendu kollum á stoppistöðvum, á Lækjartorgi eða í Laugardal. Er til betra tækifæri til að hressa upp á allt þetta „Gehen Sie bitte gerade aus…“ eða „A tout droit…“ sem troðið var í okkur í framhaldsskóla?
Flestum finnst það ekkert nema indælt þegar einhver býðst til að hjálpa því. Gleymum því ekki að margir útlendingar borga heilmikið fé fyrir að fá að vera gestir í okkar landi. Gerum okkar, eins og sannir gestgjafar, til að þeir fari héðan sáttir. Þannig að næst þegar við sjáum bandaríska fjölskyldu að rýna með angistarsvip í götukort spyrjum þá kurteislega:
„I’m sorry, you guys need any help?“
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021