Þróunin á sjónvarpsmarkaðnum hefur verið gríðar mikil á undanförnum árum. Fjöldi sjónvarpsstöðva hefur margfaldast, hljóð- og myndgæði hafa stóraukist og hinn nútíma einstaklingur eyðir sífellt meiri tíma fyrir framan skjáinn.
Á undanförnum áratug má segja að internetið, sjónvarpið og síminn hafi verið að færast nær og nær hvert öðru. Á þessum árum hefur orðið sprenging í notkun internetsins og hraðinn er orðinn svo mikill að hægt er að streyma hljóð og myndir með ágætis gæðum. Hliðrænt sjónvarp mun leggjast af innan nokkurra ára og gagnvirkt stafrænt sjónvarp taka við. Á sama tíma eru símarnir að verða að tölvum sem tengjast í gegnum internetið.
Sameining þessara miðla heitir á enskri tungu “Triple-Play” og mætti nefna þrí-leik. Slík sameining býður upp á marga nýja kosti í þjónustu við viðskiptavini og hafa fyrirtæki alls staðar í heiminum keppst við að komast fyrst inn á markaðinn með slíka lausn. Internet, sími, sjónvarp – allt í einum pakka. Ísland er engin undantekning í þessari samkeppni og eru nú tvær leiðandi fylkingar sem keppast um að koma með tilbúna heildarlausn fyrir síma, internet og sjónvarp.
Síminn og SkjárEinn bjóða upp á stafrænt sjónvarp í gegnum breiðbandskerfi Símans og hafa einnig nýlega hafið sjónvarpsútsendingar í gegnum ADSL nettengingar. Samkeppnisaðilarnir, Og Vodafone og 365 ljósvakamiðlar, bjóða í dag upp á Digital Ísland, stafrænt sjónvarp í gegnum örbylgjuloftnet og eru auk þess í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur um ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja. Þessar stafrænu útsendingar hér á landi bjóða þó enn sem komið er einungis upp á grunnþjónustu gagnvirks sjónvarps þ. e. sjálfa sjónvarpsútsendinguna.
Möguleikar gagnvirkrar stafrænnar sjónvarpsþjónustu eru margir og spennandi. Sú tækninýjung sem talið er að verði hvað vinsælust eru gagnvirkar efnisveitur (e. Video On Demand). Með efnisveitunum geta áhorfendur keypt nýjustu kvikmyndirnar, sjónvarpsþættina eða tónlistarmyndböndin og stjórnað áhorfinu sjálfir eins og um myndbandsspólu væri að ræða. Þá verður líka hægt að taka upp mikið magn sjónvarpsefnis og til dæmis gera hlé á beinum útsendingum með sérstöku stafrænu upptökutæki (e. Personal Video Recorder). Margir aðrir möguleikar munu eflaust einnig eiga vinsældum að fagna svo sem sjónvarpsverslanir, leikir og gagnvirkar auglýsingar. Á nokkrum stöðum í heiminum eru slíkar gagnvirkar sjónvarpsútsendingar orðnar að veruleika og er ítalskt fyrirtæki að nafni Fastweb þar fremst í flokki. Fastweb hefur nú um hálfa milljón áskrifendur og býður upp á fullkomlega gagnvirkt sjónvarp bæði í gegnum ljósleiðara og ADSL.
Á næstu misserum og árum verður fróðlegt að sjá hver þróunin verður hér á landi og hversu lengi íslenskir sjónvarpsáhorfendur þurfa að bíða eftir að geta nýtt sér alla kosti stafræns sjónvarps. Þróunin hér á landi mun þó líklega einnig hafa það í för með sér að notendur þurfi að velja heildarpakka annað hvort frá Símanum eða Og Vodafone og muni því ekki eiga þess kost að sjá sjónvarpsstöðvar beggja aðila. Þrátt fyrir þetta er ljóst að fjölbreytni og notkunarmöguleikar eiga eftir að aukast mikið og vera góð viðbót við afþreyingarflóru landsins.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010