Þó ótrúlegt megi virðast hefur á síðustu þremur vikum verið ráðið í þrjú veigamikil opinber embætti og stórt ríkisfyrirtæki verið einkavætt nánast án þess að heyrst hafi múkk í þeim sem vanalega finna vinnubrögðum ríkisins allt til foráttu.
Líklega eru margir sem telja ákveðna þversögn fólgna í fyrirsögn þessa pistils. Vel má taka undir það enda hafa ráðningar á vegum hins opinbera í gegnum árin yfirleitt verið gagnrýni verðar. Má þar nefna skipun hæstaréttardómara og fréttastjóra hjá Ríkisútvarpinu svo að nýleg dæmi séu tekin.
Á síðustu vikum var hins vegar ráðið í þrjú frekar valdamikil embætti hjá tveimur ríkisfyrirtækjum án þess að margir hafi fett fingur út í ráðningarnar. Er þar um að ræða: Sigrúnu Stefánsdóttur sem var skipaður forstöðumaður Rásar 2 og yfirmaður svæðisstöðva Ríkisútvarpsins, Pál Magnússon sem var skipaður útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins og Ívar J. Arndal sem tók við embætti forstjóra ÁTVR.
Í raun er erfitt að halda öðru fram en að þeir ráðherrar sem skipuðu í embættin, þ.e. menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, hafi í þetta sinn ákveðið að velja hæfasta einstaklinginn í starfið í stað þess, sem áður hefur sést, að persónuleg eða stjórnmálaleg tengsl hafi ráðið úrslitum. Allavega er erfitt að benda á aðrar forsendur fyrir vali ráðherranna en faglegar. Páll Magnússon hefur mjög mikla reynslu af sjónvarps- og útvarpsrekstri, bæði sem stjórnandi og fréttamaður, Sigrún hefur reynslu af fréttamennsku frá Ríkisútvarpinu auk þess sem hún hefur gegnt stöðu prófessors í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og Ívar var aðstoðarmaður fráfarandi forstjóra ÁTVR, Höskuldar Jónssonar, til margra ára.
Það sem er einnig athyglivert við þessar ráðningar er að verið var að ráða í stöðu æðsta stjórnanda ríkisstofnunar í tilvistarkreppu. ÁTVR er enn þá með einokunarstöðu á sviði áfengissölu en vonandi breytist það fljótt enda löngu kominn tími til að færa verslun með áfengi til nútímans. ÁTVR gæti því átt von á samkeppni innan tíðar verði einokun ÁTVR aflétt. Vonandi verður þó fyrirtækið einfaldlega selt, þó ólíklegt megi telja, enda engin þörf á ríkisrekinni áfengisverslun frekar en ríkisreknum lyfjabúðum. Nýr forstjóri ÁTVR þarf því eflaust að undirbúa fyrirtækið undir samkeppni á markaðinum, eitthvað sem fyrirtækið hefur ekki þurft að glíma við áður í sögu sinni.
Ríkisútvarpið er aftur á móti í bullandi samkeppni við einkafyrirtæki. Auk þess má telja ljóst að margt má betur fara í rekstri fyrirtækisins enda tapreksturinn verið óhóflegur undanfarin ár. Það þarf í það minnsta að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins. Ef það er ekki pólitískur vilji til þess að fara alla leið og einkavæða fyrirtækið þá þarf að skoða aðra þætti rekstrarins til að lágmarka skorun við einkageirann. Nýráðinn útvarpsstjóri hefur þegar sagt að hann telji að Ríkisútvarpið eigi að hverfa af auglýsingamarkaði. Jafnframt því ætti Ríkisútvarpið að einblína frekar á innlenda dagskrárgerð í stað kaupa á rándýru sjónvarpsefni í keppni við einkastöðvarnar. Það er því ljóst að vandasamt verk bíður nýs útvarpsstjóra, bæði við að taka reksturinn fastari tökum og við að þróa nýtt hlutverk fyrirtækisins í takt við væntanlegar breytingar á útvarpslögum þar sem hlutverk Ríkisútvarpsins verður endurskilgreint.
Þó erfitt sé að fullyrða að langhæfasti einstaklingurinn hafi verið valinn í þessi störf, þar sem ávallt er erfitt að bera saman reynslu, menntun og kunnáttu umsækjenda, er í það minnsta erfitt að gagnrýna þessar ráðningar. Faglegar forsendur en ekki pólitískar virðast hafa verið látnar ráða í þessum tilvikum og er það vel. Rétt er að vekja athygli á því sem ráðamenn gera vel í þessum efnum jafnt sem því sem þeir gera illa. Það er nauðsynlegt til að hvetja þá til þess að viðhalda þeim vinnubrögðum í stað úrelts hagsmunapots sem allt of oft hefur tíðkast á Íslandi.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008