Í Morgunblaðsgrein síðastliðinn föstudag skrifaði fjórði þingmaður Norðvesturkjördæmis, Einar K. Guðfinnsson, fróðlega og tímabæra grein um afnám vaxtabóta á Íslandi. Fjallaði hann m.a. um aukin útlán sem orðið hafa vegna breytinga á húsnæðislánamarkaðnum, áhrif stóriðjuframkvæmda og aukið lánsfé erlendis frá vegna umbreytinga íslenskra fyrirtækja.
Aðalinntak greinarinnar var þó að benda á að þar sem aldrei hefur verið auðveldara að verða sér út um lánsfjármagn og vegna mikils útlánavaxtar vegna húsnæðiskaupa, er engin ástæða til að halda úti vaxtabótakerfi, ekki síst á tímum þegar öll starfsemi ríkisins ætti að vera í lágmarki. Niðurgreiðslur á lánsfjármagni vinna gegn aðgerðum Seðlabankans til að halda niðrir verðbólgu – verkefni sem bankinn virðist eiga fullt í fangi með.
Þetta eru góðar ástæður til að leggja niður vaxtabætur. Engin ástæða er til þess að Ríkið hvetji fólk til að fá peninga að láni og stuðla þannig enn frekar að skuldasöfnun heimilina. Án efa væri hægt að finna sanngjarnari leiðir til að dreifa þeim fjármunum sem fara í kerfið en samkvæmt Ríkisskattsstjóra voru rúmir fimm milljörðum greiddir út árið 2004. Þar hljóta skattalækkanir að vera ofarlega á blaði.
En Einar nefnir fleiri ástæður fyrir því að leggja niður vaxtabæturnar. Þar sem um 80% bótanna eru greiddar til íbúa í Reykjavík og Reykjanesinu þá er um ósanngjarna niðurgreiðslu fólks á landsbyggðinni til fólks í höfuðborginni að ræða. Við fyrstu sýn virðist ekki vera sanngjarnt að svona stór hluti fari til höfuðborgarbúa, sem eru um 63% landsmanna, en við nánari skoðun kemur fram eðlileg skýring á því .
Vaxtabæturnar voru veittar í þeim tilgangi að létta undir með skuldsettum heimilum og auðvelda fjárfestingar. Vaxtabæturnar eru tengdar upphæð skulda og tekjutengdar. Því gefur hlutfall vaxtabóta sem fara á höfuðborgarsvæðið til kynna að heimili í Reykjavík séu skuldsettari en heimili úti á landi.
Ástæður þess að heimili á höfuðborgarsvæðinu eru skuldsettari geta verið margvíslegar en líklegast er þó að hátt húsnæðisverð hafi eitthvað með það að gera. Þannig kostar íbúð í Reykjavík allt að tvöföldu verði íbúðar á landsbyggðinni og ætli megi ekki geta sér til um að það hafi eitthvað með þessa ,,ósanngjörnu“ skiptingu að gera. Vissulega hefur hækkandi íbúðaverð gefið mörgum tækifæri til að leysa út hagnað með því að auka veðsetningu eigna sinna eða minnka við sig en í flestum tilfellum snerta hækkanirnar fólk lítið. Einstaklingar sem eru nýir á markaðnum og/eða eru að stækka við sig finna þó hressilega fyrir hækkunum sem er væntanlega hópurinn sem vaxtabæturnar áttu að styðja við í upphafi.
Niðurfelling vaxtabóta er orðið þarft verkefni þó að það eigi eflaust eftir að reynast sársaukafullt. Eins og Einar bendir réttilega á eru bæturnar barn síns tíma og hættar að þjóna sínum upphaflega tilgangi þar sem íslenskt lánaumhverfi hefur gjörbreyst frá þeim tíma þegar þær voru settar. Einnig er nokkuð víst að niðurfelling þeirra eigi eftir að mæta andstöðu í þjóðfélaginu, en með vandaðri umfjöllun og þéttum röksemdum er engin ástæða til að ætla að ekki geti myndast samstaða um hana.
Því er nauðsynlegt að grafa ekki undan mikilvægi málsins með samanburði sem stenst ekki nánari skoðun.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021