Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa undanfarinn áratug harðlega gagnrýnt R-listann fyrir fjármálaóreiðu, skuldasöfnun, sóun á fjármunum og hækkun skatta á borgarbúa. Fastur liður í þessari gagnrýni hefur verið gagnrýni á rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og tengdra fyrirtækja, svo sem Línu Nets. Kosningaúrslit í síðustu tveimur borgarstjórnarkosningum virðast benda til þess að sú stefna Sjálfstæðismanna að leggja mikla áherslu á þessa gagnrýni hafi ekki borið tilætlaðan árangur. Á síðastliðnum mánuðum hafa margir talað um að Sjálfstæðismenn í borginni þurfi að tileinka sér jákvæðari málflutning ef þeir eiga að geta endurheimt meirihluta í borginni.
Það er líklega rétt að Sjálfstæðimenn þurfa að hætta að nöldra um fjármálaóreiðu ef þeir ætla sér að bæta fylgi sitt í borginni. En þó að þeir hætti algerlega að tala um fjármálaóreiðu R-listans og sóun Orkuveitunnar ættu þeir samt að geta fært sér þessi atriði í nyt. Í stað þess að hamra endalaust á þessum atriðum ættu Sjálfstæðismenn einfaldlega að lofa borgarbúum að þeir muni lækka verð á heita vatninu um svo sem 15% strax þegar þeir komast til valda.
Ef Orkuveitan sóar jafn miklu fé og Sjálfstæðismenn vilja vera láta þá ætti að skapast talsvert svigrúm til verðlækkana við það eitt að þessari sóun sé hætt. Þar að auki ætti nýr meirihluti Sjálfstæðismanna að geta losað um talsverða fjármuni með því að selja eitthvað af eignum Orkuveitunnar svo sem höllina uppi á Bæjarhálsi.
Stanslaus gagnrýni á fjármálaóreiðu hefur ekki náð til kjósenda að hluta til þar sem gagnrýnin hefur verið með þeim hætti að erfitt hefur verið fyrir kjósendur að heimfæra hana á sinn eigin hag. En 15% lækkun á verði heitavatnsins er eitthvað sem allir skilja. Sjálfstæðismenn ættu að leggja vinnu í að átta sig á því hversu miklum fjármunum Alfreð og félagar hafa verið að sóa árlega í ýmis gæluverkefni og lofa að vinda ofanaf slíku strax og skila ágóðanum til borgarbúa í formi lægra verðs.
Sjálfstæðismenn í borginni ættu reyndar að nota sams konar aðferðafræði hvað varðar fjármálaóreiðu R-listans almennt. Þeir ættu að reikna út hversu mikið þeir telja sig geta sparað í rekstri borgarinnar og lofa að lækka skatta borgarbúa sem því nemur. Slík loforð munu án efa ná betur til borgarbúa en eilíft nöldur. Og þau gera það einnig að verkum að frambjóðendur flokksins geta einbeitt sér að því að tala um jákvæðari mál, svo sem skipulagsmál, skólamál og íþrótta- og tómstundarmál.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009