Guðni, hvar er staða konunnar?
|
Því miður er það orðinn fastur liður í tilverunni að umræða um kaup og kjör einstaklinga í samfélaginu ómi árlega um kaffistofur landsmanna. Þannig virðast menn ekki sjá neitt athugavert við það að hver sem er geti spássérað til Ríkisskattsjóra og reiknað út hvað nágranni sinn er með í mánaðartekjur. Sjúkt viðhorf sem sumir reyna að verja með því að vísa til þess að þetta sé besta leiðin til að koma upp um skattsvikara! Oj, bjakk – nei, takk: skattayfirvöld eru fullfær til þess og engin ástæða til þess að bakarar, prestar og strætóbílstjórar taki að sér hlutverk skattrannsóknamanna. Newsflass: tilgangurinn helgar nefnilega ekki meðalið og slíkt eftirlit samborgaranna er jafn ógeðfellt og það er meingallað. Einhvers konar óskilgetið afkvæmi öfundar, forvitni og illkvitni — uppdressað í gatslitin búning umhyggju og réttlætis
Og fjölmiðlarnir spila að sjálfsögðu með. Þannig var mjög sorglegt að hlusta á stjórnendur þáttarins Íslands í dag stilla tveimur forkólfum í viðskiptalífinu upp sem einhverjum skólastrákum í gærkvöld og hálfpartinn skamma þá fyrir að vera með svona há laun! Fyrst tók þó steininn úr þegar þáttastjórnendur fóru í einhvers konar fáránlega mannjöfnun á milli gjaldkera og bankastjóra — eins og laun bankastjóra í samanburði við starfsmenn í allt annarri stöðu og með allt aðra ábyrgð ættu að vera upplýsandi.
Mér varð strax hugsað til appelsína og epla.
Eins og við var að búast kom Guðni Ágústsson þó með gáfulegustu ummælin og tókst að toppa nýleg ummæli sín um að konan ætti best heima á bak við eldavélina (Innskot: Guðni, ef þær eru bak við eldavélina – er þá ekki svolítið þröngt um þær? Þú átti kannski við að staða konunnar í þínum huga sé fyrir framan eldavélina?…) En þetta var nú útúrdúr, börnin góð.
Í fréttum ríkisútvarpsins var bent á að Guðni teldi að stjórnendur ættu að horfa til launa forseta Íslands þegar þeir skömmtuðu sjálfum sér laun. Hér er tvennt sem stingur í augu. Í fyrsta lagi þá skammta þeir sér ekki laun — öfugt við t.d. Alþingismenn sem skömmtuðu sjálfum sér ríkulega launauppbót með eftirlaunafrumvarpinu alræmda. Í annan stað þá er fullyrðing Guðna kjánaleg.
Setjum málið í samhengi.
Gagnrýnendur hárra launa íslenskra stjórnenda eru svo uppteknir við einhvers konar fáránlega mannjöfnun að þeir sjá ekki aðalatriði málsins. Fyrirtæki á frjálsum markaði greiða starfsmönnum sínum þær tekjur sem þeir standa undir — og ef þau gerðu það ekki þá er líklegt að eitthvert annað fyrirtæki sæi hag sinn í að greiða þeim slíkar tekjur. Þetta er nefnilega allt saman spörgsmál um svolítið framboð og svolitla eftirspurn.
Auðvitað eru tekjur margra stjórnenda svimandi háar, því verður ekkert neitað. En fyrirtækin sem þeir stýra eru líka gríðarlega stór og hafa vaxið gríðarlega — hamingjan góða! — á skömmum tíma. Að sama skapi eru laun þeirra flestra árangurstengd, þ.e. ef vel gengur hjá fyrirtækinu þá líta menn svo á að hugsanlega hafi stjórnendur eitthvað með velgengnina að gera. Á nákvæmlega sama máta líta menn auðvitað fyrst til þeirra þegar gefur á bátinn — en undir engum kringumstæðum verður sökinni af slæmri rekstrarafkomu skellt á óbreyttan gjaldkera!
Og svona til að róa menn sem fylgjast með ensku knattspyrnunni má kannski benda á að flestir íslenskir stjórnendur eru með lægri laun en varamenn í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að stjórnendur íslenskra fyrirtækja séu margir hverjir með markahæstu mönnum á Englandi.
En kannski er rétt að lifa eftir hugsunarhætti Guðna og annarra smáborgara, sem eru svo uppteknir við að verja eigin mark til að ná fram jafntefli — að þeir fatta ekki að góðir strækerar eru þyngdar sinnar virði í gulli.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007