Fréttir um stofnun félags á Suður- og Norðurlandi sem á að vinna að uppbyggingu og malbikun Kjalvegar vöktu athygli undirritaðrar á dögunum. Félagið “Norðurvegur” sem kannaði möguleika á hálendisvegi um Stórasand stendur m.a. að stofnun félagsins. Þessar fréttir vöktu athygli mína fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi er verið að tala um einkaframkvæmd, þ.e.a.s. Vegagerðin kemur hvergi nálægt þessu og vegatollar yrðu settir á leiðina, og í öðru lagi hef ég aldrei svo ég muni heyrt nokkurn mann kvarta yfir Kjalvegi eins og hann er. Ég ákvað því að lesa mér aðeins til um málið og skrifa stuttan og hlutlausan pistil um málið. Eftir talsverða umhugsun og lestur um málið varð ljóst að ég verð alls ekki hlutlaus, en ég skal reyna að vera málefnaleg.
Norðurvegur er félag sem var stofnað í febrúar sl. Sagðist geta stytt leiðina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 81 km með því að færa hann yfir Stórasand en sú leið liggur að hluta til í tæplega 800 metra hæð. Eftir að hafa slaufað þessari hugmynd fóru Jóhannes í Bónus, Andri Teitsson í KEA og félagar í Norðurvegi að ræða uppbyggðan og lagfærðan Kjalveg sem liggur í u.þ.b. 600 metra hæð. Þeir sem þekkja leiðina vel höfðu strax sínar efasemdir og meðal þeirra jeppamanna sem eru vanir að fara þarna á milli vaknaði mikil óánægja með að þurfa skyndilega að borga vegatolla fyrir að keyra Kjalveg sem hefur hingað til verið í eigu þjóðarinnar.
Að sjálfsögðu er það ekkert nema gott mál að hægt sé að stytta vegalengdina milli Akureyrar og Reykjavíkur og skiljanlegt að það skipti mörg bæjarfélög máli. Nú þegar er Kjalvegur fólksbílafær á sumrin en þar sem hann er ómalbikaður kemur hann misvel/illa undan vetri og því kannski allt eins gott að klára verkið. Margir bílar hafa farið mjög illa á þessari leið svo ekki sé minnst á þá erlendu ferðamenn sem freistast til að keyra yfir á Kjöl á bílaleigubílum, vitandi lítið um aðstæður.
En það er svo margt annað sem þarna kemur inn í. Ég varð mjög hissa fyrst þegar ég heyrði hugmyndina þar sem ég hef aldrei heyrt að þrýstingur væri á að Kjalvegur væri lagfærður, eða að þörf væri á þessum hálendisvegi. Kostnaður er áætlaður 5-5.5 milljarðar króna en ekki má gleyma öðrum kostnaði sem þessu fylgir. Á hálendisveginum þyrfti að opna bensínstöðvar og sjoppur sem ekki eru til staðar í dag. Þeir sem þekkja hálendið vel segja að það gæti orðið erfitt að halda veginum opnum yfir veturinn og því fylgir einnig mikill kostnaður, svo ekki sé minnst á útköll við að sækja litlu Yarisana, pikkfasta í snjósköflum. Nei, nú er ég orðin ómálefnaleg. Hálendisvegurinn gæti að öllum líkindum verið opinn allt árið þó Kjalvegur eins og hann er núna sé lokaður vegna snjóþyngsla yfir vetrarmánuðina. Vegurinn yrði byggður upp þannig að snjó festi ekki jafnauðveldlega en það þarf að huga vandlega að öllum þáttum, því það er synd að fara í þessa framkvæmd ef vegurinn er svo ekki nothæfur allt árið.
Ein spurning sem vaknaði í kollinum á mér var öryggi. Umferð um Kjöl myndi að öllum líkindum aukast til muna og hraðinn að sama skapi. Nú hefur lögreglan verið með sérstakt átak til að koma í veg fyrir hraðakstur til að fækka slysum. Þetta kallar á aukinn mannskap og umsvif lögreglu þar sem löggæsla eins og hún er í dag er ekki nóg til að sinna leiðunum tveimur, ekki nema sérstök “hálendislögga” myndi sjá um eftirlit á Kjalvegi.
Íslenska hálendið hefur alltaf verið mikil náttúruparadís og kærkomin hestamönnum, göngufólki og þeim sem njóta ósnortinnar náttúru. Fjöldi ferðamanna sækist eftir auðninni, kyrrðinni og ferska loftinu sem finnst á hálendi Íslands, og uppbyggður og malbikaður hálendisvegur með tilheyrandi umferð og sjoppum á kortersfresti er ekki beinlínis sá draumur sem við seljum erlendum ferðamönnum.
Mér finnst mjög eðlilegt að leita leiða til að stytta vegalengdir en öryggi vegfarenda á þó alltaf að vera í fyrirrúmi. Er því ekki skynsamlegra að eyða kröftum og fjármunum í að koma hringveginum í betra horf? Það þjónar mun fleiri aðilum. Er ekki eðlilegra að breikka allar einbreiðar brýr en að byggja glæsivegi yfir mitt hálendið sem þjóna hagsmunum mun færri landsmanna?
Það er a.m.k. ósk undirritaðrar að þegar hún snýr aftur til heimahaganna geti hún jeppast yfir Kjöl og þurfi að taka með nesti.
- Passinn til Paradísar - 18. maí 2006
- Leitin að fjársjóðnum - 19. febrúar 2006
- Jarðsprengjur: ódýrar og auðveldar í framleiðslu! - 28. ágúst 2005