Fæstir hafa farið varhluta af haustveðri fyrrihluta júlímánaðar. Veðurgremjan hefur snert flesta Íslendinga sem sitja með sárt ennið í minningu blíðunnar síðasta sumars. En nú þegar ágúst nálgast og fjöldi nemenda við Háskóla Íslands fara að huga að glósutækni komandi sumarprófa, hefur sólin tekið við sér. Frábært. Grillboðin streyma inn og samviskupúkinn segir þér að setjast við skrifborðið.
Úrsagnarfrestur sumarprófa rennur út 5.ágúst og er áhugi undirritaðrar er ekki meiri en sá að martraðir um fall í miðri kennslustund í sal 1 Háskólabíói hafa truflað svefnfriðinn að undanförnu. En spurningin er hvort að þetta prófapuð á þessum tíma sé þess virði. Ef útskrift eða námslán eru í veði er vert að spýta í lófana. En hafa skal í huga að ef einingar vantar upp á vorönn til að fá námslán, þá verður að taka sumarpróf í fagi sem kennt er á vorönn. Námskeið haustannar geta ekki komið í staðinn, reginmistök höfundar síðasta sumar.
Hvernig skal þá koma vinnu, utanlandsferð og tveimur sumarprófum fyrir í einum mánuði ásamt öllu sumarglensinu? Má ekki bara slá þessu saman og baða sig í laugunum með ís annarri og bráðnaðar glósur í hinni? Við sem höfum reynt þetta getum ráðlagt restinni. Eins og í öðrum prófum sem að standast skal, þá er málið að læsa sig við skrifborð með lítrana af kaffi og gleyma umheiminum. Lærdómur með hangandi hendi er tímasóun. Njótum júlí til hins ítrasta, setjum allt í botn nokkra daga fyrir próf og höldum síðan partýinu gangandi.
Gleðilega sól og gangi ykkur vel!
- Verslunarsýki - 15. október 2005
- Vamos bien? - 5. ágúst 2005
- Grillað og glósað - 21. júlí 2005