Noradrenalínið gerir það að verkum að fólk nær að vera ástfangið lengur en fáeina daga.
|
Þeir þekkja það sem hafa orðið ástfangnir að hægt er að upplifa himnaríki og helvíti nánast samtímis og oft erfitt að einbeita sér að einföldustu hlutum í hversdagslífinu. Oft mætti halda að ástfangið fólk hafi orðið fyrir vægum heilaskaða. En hvernig má það standast? Jú, fram kemur að fólk sem haldið er þráhyggju eða áráttuhegðun, svokölluðum OCD-sjúkdómi (obsessive compulsive disorder) hefur oft mun minna magn af hormóninu serótóníni en eðlilegt telst. Geðlæknir við háskólann í Pisa komst að því að þetta gildir líka um bráðástfangið fólk þar sem magn þessa hormóns mælist iðjulega um 40% lægra en eðlilegt getur talist. Þéttni þessa hormóns eykst svo aftur þegar ástareldurinn fer að fölna en þessi skortur hefur þann kost að auka hinn áráttukennda áhuga á þeim eða þeirri sem ástin beinist að.
Það að vera ástfangin getur verið algjör himnasæla ef báðir aðilarnir eru á sömu bylgjulengd hvað áhuga og ást varðar. Ástæða þessarar sælu er sú að heilinn tvöfaldar framleiðslu sína á boðefninu fenyletylamíni (PEA). Þetta efni svipar til amfetamíns og virkar örvandi á skaplyndið og er einnig talið valda roða í kinnum sem einkennir ástfangið fólk.
Heilarannsóknin sem gerð var á tveimur hópum, annars vegar fólki sem var ný orðið ástfangið og svo fólki sem var að meðaltali búið að vera í sambandi í 2,3 ár sýndi ótrúlega niðurstöðu. Hjá þeim sem voru nýástfangnir varð það svæði í heilanum sem framkallar dópamín mjög virkt. Dópamínið veitir mikla hamingjutilfinningu og framkallar líka testósterón sem eykur kynhvötina. Vísindamenn komust líka að því að áráttuhegðun, þráhyggja og kynhvöt krefjast mikillar orku og töldu þeir það ástæðuna fyrir því að líkaminn framleiddi mikið noradrenalín þegar fólk er mjög ástfangið.
Noradrenalínið gerir það að verkum að fólk nær að vera ástfangið lengur en fáeina daga. En við vitum líka að það versta sem getur komið fyrir ástfangið fólk er þegar ástin er ekki endurgoldin. Við þessa höfnun hætta hormónin að skapa jákvæðar tilfinningar og herja á líkamann í staðinn með mjög neikvæðum afleiðingum eins og depurð, þunglyndi, hefndarþorsta og reiði. Það sem dópamínið gerði áður fyrir líkamann þegar viðkomandi var ástfanginn breytir nú um stefnu og fer að verðlauna svívirðilegar athafnir í stað árangurs í ástarlífinu. Sá sem særður var fær nú útrás í að rífa bréf frá ástinni, myndir, og eyða viðkomandi úr símanum.
Þeir sem lenda í þessum aðstæðum geta huggað sig við það að fyrr eða síðar finna hormónin í líkamanum jafnvægið að nýju en það getur samt tekið allt að hálft ár samkvæmt vísindamönnum. Það verður samt að viðurkennast að fyrir þá sem eru mjög ástfangnir og vilja ríghalda í maka sinn væri gott að eiga noradrenalínið á lager. Það efni er hins vegar einungis til líkamanum og sér hann alfarið um að framleiða það. Það eina í stöðunni er víst að elska makann og krossa fingur. Ef sambandið riðar til falls er mikið kynlíf líka gott ráð að mati vísindamanna en það getur blásið lífi í hormónastarfsemina. Nú ef það ekki virkar og allt annað klikkar þá munu hormónin komast í jafnvægi og viðkomandi jafna sig á ástarsorginni. – fyrr eða síðar.
Heimild: Lifandi vísindi
- Eldgos, gjörðu svo vel! - 30. apríl 2021
- Ameríkuferð Reykjanesskagans - 2. mars 2021
- Þegar landið rís - 25. janúar 2021