Kapphlaup um vestræna viðurkenningu

Nýverið tilkynnti Alþjóða ólympíunefndin að London myndi hýsa Ólympíuleikana árið 2012, en næstu leikar fara fram í Kína eftir þrjú ár, nánar tiltekið í Peking höfuðborg landsins. Það telst mikill heiður fyrir land og þjóð að fá að hýsa Ólympíuleikana.

Nýverið tilkynnti Alþjóða ólympíunefndin að London myndi hýsa Ólympíuleikana árið 2012, en næstu leikar fara fram í Kína eftir þrjú ár, nánar tiltekið í Peking höfuðborg landsins. Það telst mikill heiður fyrir land og þjóð að fá að hýsa Ólympíuleikana. Leikarnir eru grískir að uppruna og eiga sér langa sögu sem rekja má til ársins 776 fyrir Krist. Leikarnir, eins og við þekkjum þá í dag, voru endurvaktir árið 1896 í Aþenu og hafa verið haldnir nær samfellt til dagsins í dag, að undanskyldum árunum í kringum seinni heimstyrjöldina.

Á Ólympíuleikunum koma saman þúsundir keppenda frá um 200 löndum. Fulltrúar þjóða heimsins koma saman með friði og keppa hver við annan, þrátt fyrir allt það sem á gengur í heiminum. Leikarnir hafa vaxið með árunum, bæði keppendum og áhorfendum hefur fjölgað og umgjörðin er orðin umfangsmeiri. Þær þjóðir sem hafa haldið leikana síðustu ár hafa keppst um að gera umgjörðina sem glæsilegasta og halda mætti að það væri orðin ein aðal keppnisgrein leikanna. Staðarhaldarar reyna ávallt að toppa umgjörð leikanna sem á undan hafa verið og þar leikur opnunarhátíðin lykilatriði. Ljóst er að Peking er engin undantekning að þessu leiti – það fer ekki framhjá neinum sem kemur til Peking að undirbúningur fyrir Ólympíuleikanna er í fullum gangi. Allstaðar um borgina má sjá merki leikanna og umfjallanir í blöðum snúast mikið um það sem framundan er og tengist leikunum.

Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað frá því að ljóst var að leikarnir yrðu í borginni og augljóst að öllu er tjaldað til að Peking verði sem mest aðlaðandi fyrir alla þá ferðamenn sem leikarnir eiga eftir að laða að sér.

Á síðustu árum hefur útlendingum með aðsetur í borginni fjölgað gífurlega og vestrænna áhrifa gætir víða. Fjöldi húsa hefur verið rifin niður og háhýsi byggð í staðinn, ekki öllum til ánægju. Mikið er lagt upp úr því að þær framkvæmdir sem tengjast leikunum séu umhverfisvænar, en mikil mengun er í Peking bæði frá verksmiðjum og bílum.

Sérstöku þriggja ára átaki var hrundið af stað á árinu til þess að bæta mannasiði Pekingbúa fyrir leikana, en Kommúnistaflokkurinn taldi það nauðsynlegan þátt í að taka vel á móti gestum sínum. Þrátt fyrir að Kínverjar séu hið rólegasta fólk þá er ýmislegt í fari þeirra sem er ólíkt því sem vesturlandabúar þekkja – sem greinarhöfundi finnst að flestu leiti kostur frekar en löstur. Það er eitt sem undirritaðri finnst sérstaklega skemmtilegt við Kínverja og það er hversu hjátrúarfullir þeir eru, t.d. þá vilja þeir helst ekki sjá töluna fjóra, ekki sem símanúmer, húsnúmer, bílnúmer né neitt annað, því það jafngildir því að ákalla dauðann. Svo skemmtilega vill til að talan fjórir kemur fimm sinnum fyrir í kínversku símanúmeri greinarhöfundar og þegar ég gef upp númerið mitt þá fá þeir fyrir hjartað. Hjátrú er einmitt ástæðan fyrir því að Ólympíuleikarnir í Peking hefjast 8. ágúst – en talan átta boðar gæfu (e. fortune) og er það von þeirra að kínversku íþróttamennirnir munu njóta gæfu á leikunum. Slagorð leikanna er einfalt og eftirminnilegt „einn heimur, einn draumur“ (e. One World one Dream ). Það verður gaman að fylgjast með hvernig Kínverjum á eftir að takast til með Ólympíuleikana 2008 og hvort þeir hljóti viðurkenningu hins vestræna heims.

Heimildir

“ target=“_new“>Heimasíða Ólympíuleikanna í Peking 2008

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.