Örfirisey
|
Svo virðist sem ráðið til að vinna hug og hjörtu kjósenda í næstu borgarstjórnarkosningum sé að slá fram trompum í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar. Svo sem ekki skrítið, þar sem almenningur finnur tilfinnanlega fyrir málaflokknum í augnablikinu. Gatnagerðaflækja virðist hrjá borgina og umferðaræðar stútfullar af ringluðum bílstjórum sem vita varla hvort þeir koma eða fara.
Þó að aðalumræðuefni í heitum pottum íslenskra sundlauga sé nú líklega ennþá veðrið, fylgir umræða um hversu mikið verð á húsnæði hefur hækkað fast á eftir (hver kannast ekki við að hafa heyrt sögu af einhverjum sem keypti íbúð á x og y mánuðum seinna var hún metin á 2x ). Þó að borgarstjórinn okkar, hún Steinunn Valdís, hafi haldið því fram í Kastljósi um daginn að lóðaskortur hefði ekkert með hækkandi íbúðaverð að gera, virðast nú samt fáir taka undir þá fullyrðingu hennar. Vonandi eru flestir sammála um að framboð og eftirspurn hafi a.m.k. einhver áhrif á verð íbúða og lóðaskortur hafi eitthvað með það að segja.
Því er skiljanlegt að skipulagsmál séu ofarlega í hugum borgarbúa.
Auðvitað er bara hið besta mál að þessi mikilvægi málaflokkur sé kominn undir smásjá kjósenda. Varla nokkur maður telur að skipulagsmál séu til fyrirmyndar í borginni enda álíka skipulögð og herbergi íslenskra unglinga.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu virðast hvert og eitt vera í einspili þegar kemur að skipulagsmálum. Þó að reglulegt kaffisamsæti þeirra eigi að gefa tækifæri til að ræða heildarsýn á höfuðborgarsvæðið virðast hagsmunir Reykjavíkur allt of oft láta í minni pokann fyrir hagsmunum einstakra sveitarfélaga sem veldur því að borgin þenst út í allar áttir.
Nóg virðist vera af byggingarlandi innan borgarmarkanna. Væri t.d. hægt að nýta Örfirisey betur en gert er í dag? Núverandi kvaðir um hafsækna starfsemi eru fyrir löngu úr sér gengar og hvaða vit er í að byggja upp Lýsisverksmiðjuna við sjávarsíðuna í Vesturbænum?
Á einu eftirsóknarverðasta byggingarlandi í borginni, á milli Fossvogskirkjugarðs og Perlunnar, eru nú áform um að byggja duftkirkjugarð! Já duftkirkjugarð. Vonandi að maður fái notið útsýnisins í yfir Fossvoginn og nálægðar við miðborgina handan við móðuna miklu.
Flugvöllurinn er náttúrulega sér kapituli út af fyrir sig – líklega eitt stærsta skipulagsvandamál Reykjavíkurborgar og efni í annan pistil.
Mikið er af grænum svæðum í Reykjavík og þjóna þau mikilvægum tilgangi í að skapa tækifæri til útivistar og íþrótta. En hefur einhver velt því fyrir sér hversu mikið af grænum svæðum við þurfum? Væri t.d. hægt að nýta meira af Fossvoginum til byggingalands. Hvernig er með þessi svæði á milli Reykjavíkur og Kópavogs og Garðabæjar, Kópavogs, Álftaness og Hafnarfjarðar. Væri ekki hægt að nýta þau mun betur en gert er í dag?
Skemmst er að minnast tillagna frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem aukin nýting á eyjum í nágrenni borgarinnar við sundin. Fljótlega eftir að tillögur sjálfstæðismanna voru lagðar fram, skellti Stefán Jón Hafstein fram tillögu um framtíðarbyggð í Vatnsmýrinni og Álftanesi og í fljótu bragði virðast margar góðar hugmyndir, þó að vissulega séu þær misgóðar, leynast í tillögum borgarstjórnarflokkanna.
Sú tillaga sem kannski fékk ekki eins mikla umræðu og hinar tvær var tillaga Frjálslynda flokksins þó að hún hafi verið einna áhugaverðust og kannski skynsamlegust. Lagði flokkurinn til að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu yrðu sameinuð og skipulagsmál rædd með höfuðborgarsvæðið allt í huga.
Auðvitað ætti að vera búið að sameina eitthvað af þessum átta sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu fyrir löngu. Augljósast er hagræðið sem myndi skapast í skipulagsmálum sem hafa verið uppspretta endalausra deilna á meðal sveitarfélaganna. En einnig væri hægt sjá fyrir sér að mikið hagræði gæti skapast í að minnka yfirbyggingu stjórnkerfis borgarinnar.
Þó er kannski ekki ástæða til að sameina þau öll og missa þannig heilbrigða samkeppni á milli þeirra og ávinning minni eininga. Fólk á að geta valið sér búsetu meðal annars með tilliti til framistöðu sveitarfélaganna í t.d. skipulags-, mennta- og fjármálum. En vel væri hægt að hugsa sér að mynda þrjú sterk sveitarfélög í borginni, öll með fleiri en 25 þúsund íbúa, án þess að fórna þessum kostum. Slík útfærsla gæti t.d. falið í sér sameiningu annars vegar Hafnarfjarðarkaupstaðar, Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftanes og hins vegar Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar. Með Kópavogi væru því þrjú sterk sveitarfélög innan borgarmarkanna.
Auðvitað er algjörlega óraunhæft að ætla að forsvarsmenn sveitarfélaganna tækju vel í þessa hugmynd enda yrðu margir þeirra að taka pokann sinn ef hún kæmist í framkvæmd.
Aukin óánægja Reykvíkinga með skipulagsmál hefur kraumað undir í þónokkurn tíma og sitt sýnist hverjum. Ef einhver raunverulegur árangur á að nást í að bæta ástandið er ljóst að skyndilausnir og lagfæring á einstaka svæðum hrekkur skammt. Nauðsynlegt er að hugsa stærra, lengra fram í tímann og með heildarskipulag í huga. Í þessum málaflokki, eins og svo mörgum öðrum, er því mikilvægt að afskrifa ekki hugmyndir sem í fyrstu sýnast erfiðar í framkvæmd eða þjóna ekki hagsmunum allra. Minni hagsmunir verða að víkja fyrir meiri.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021