Hryðjuverkastríðið sem nú á sér stað hefur einkennst af því að fórnarlömbin eru flest almennir borgarar. Á vesturlöndunum hafa stærstu árásirnar verið á New York, Madríd og London. En Al Kaída hefur einnig ráðist á Istanbúl, Cairó og fleiri staði sem hefur minna verið fjallað um í vestrænum fjölmiðlum.
Eitt áhyggjuefni sem menn hafa haft eftir hryðjuverkaárásir í Evrópu og Bandaríkjunum er að fólk af íslamskri trú eigi eftir að lenda í ofsóknum. Sá ótti hefur nær alltaf reynst ástæðulaus. Fólk á vesturlöndum virðist einfaldlega neita að gera heil trúarbrögð ábyrg fyrir verkum nokkurra sjúkra manna.
Það sem standa mun uppúr þegar þessir atburðir verða gerðir upp í sögulegu samhengi eru viðbrögð almennings sem hafa einkennst af staðfestu og hugrekki.
Þessi viðbrögð minna að ákveðnu leyti á verk Mahatma Gandhi sem var upphafsmaðurinn að ofbeldislaustri andstöðu (Passive Resistance). Indverska orðið sem hann bjó til fyrir andstöðuna var Satyagraha sem er búið til úr tveimur orðum í Guajarati: „Sat“ sem þýðir sannleikur og „Agraha“ sem þýðir staðfesta.
Herir vesturlanda (með eða án vilja okkar), standa í stríði í Írak og Afganistan. Á sama tíma þá stendur almenningur í stríði við hryðjuverkamenn heima hjá sér. Vopn almennings í því stríði er Satyagraha.
Hryðjuverkamennirnir ætla sér að beygja okkur til hræðslu og vænisýki. Þeir ætlast til þess að skapa eins mikinn óróa og hægt er. Þeirra markmið er að gera okkur ótrygg með samfélag okkar.
Helsta vopn okkar er þá að mæta í vinnu, fara í bíó, skella sér á kaffihús. Sýna það hvern einasta dag að þeir munu ekki breyta því hvernig við lifum okkar lífi.
Við verjum okkur með hugrekki, staðfestu og þeirri trú að okkar leið, leið umburðarlyndis og persónulegs frelsi sé sannleikurinn. Eitt mun koma í ljós að lokum: Staðfesta okkar og ást á frelsinu er mun meira en hatur þessara manna á því. Þess vegna munu þeir aldrei vinna.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021