Í gær dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur mann í tveggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að taka mann kverkataki svo honum sortnaði fyrir augum, hruflaðist á hálsi og hlaut mar af. Í dómsorði segir meðal annars: „Ofbeldisfullt framferði ákærða var rustafengið, ófyrirleitið og með öllu tilefnislaust.“
Atvikið átti sér stað á ritstjórnarskrifstofu DV, hinn ákærði var meintur handrukkari og fórnarlambið meintur fréttastjóri DV. Sá fyrrnefndi hugðist ná tali af ritstjóra blaðsins vegna óánægju sinnar með umfjöllun DV um handrukkara og starfsaðferðir þeirra. Þegar fórnarlambið samkvæmt dómsorði hugðist vísa gestinum út upphósft rimma er leiddi til fyrrgreindra áverka og þess að fréttastjórinn sá ljósið við enda ganganna.
Það vill svo til að líklega er umfjöllun DV um handrukkara það eina sem almenningur hefur talið af hinu góða. Mörgum fannst þjóðþrifaverk að varpa ljósi á ofbeldi og miskunnarleysi sem vissulega þrífst hér, enda er fólk varnarlaust gegn aðferðum handrukkara og lögreglan getur lítið gert.
Einhverjir sögðu: „þar kom vel á vondan“ þegar Mikael Torfason kom fram í fjölmiðlum og lýsti því hvernig honum hefði verið hótað á meðan blaðið fjallaði um handrukkarana. Mér fannst hann nefnilega kominn í nákvæmlega sömu spor og hans eigin fórnarlömb.
Nú vakna þessar spurningar aftur. Árásarmaður fréttastjórans fær óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir „ofbeldisfullt, rustafengið, ófyrirleitið og með öllu tilefnislaust framferði“ á meðan fréttastjórinn og ritstjórinn sleppa með nákvæmlega sama framferði. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þeir eru nógu snjallir til að skilja ekki eftir sig sjáanlega áverka. Þeir beita ekki líkamlegu ofbeldi heldur andlegu. Það er jú svo miklu skárra.
Fréttastjórinn fékk áverkavottorð hjá lækni, eflaust voru teknar myndir af hrufluðum og bláum hálsi hans. Með þau sönnunargögn voru orð hans um að honum hafi sortnað fyrir augum tekin trúanleg. Erfiðara er að færa sönnur á andlega áverka sem blöð á borð við DV valda þó þeir séu jafnan lengur að gróa en líkamlegir.
Viðbjóðurinn sem DV, Hér og nú og Séð og heyrt birta á síðum sínum er óumdeilanlega ófyrirleitinn. Rustafengin og ofbeldisfull framkoma fréttasnápanna slík að þeim er sama hvað fyrir verður. Tilefnislausar árásir á grandalaust fólk. Og hvers vegna? Jú, þetta eru opinberar persónur – frægt fólk.
Mér sýnist svo umfjöllun – eða öllu heldur skortur á umfjöllun – DV og Hér og nú um málefni Baugs þessa dagana vera endanleg sönnun, fyrir þá sem enn voru í vafa, á meinfýsni og með öllu óheilbrigðu fréttamati þessa fólks sem nærist á eymd náungans.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021