Svindlað á dauðanum

Ný lyf, nýjar aðferðir í skurðlækningum og líffæraflutningar hafa gefið mannskepnunni ótal vopn til að berjast gegn eða fresta vísum dauða. Nýjustu fregnir af meðhöndlunum lífshættulegra bráðatilfella herma að nú sé hægt að vekja fólk aftur til lífs eftir allt að þriggja tíma dauða. Ótrúlegt?

Læknavísindin hafa í áranna rás gefið mannkyninu sífellt fleiri tækifæri til þess að svindla á dauðanum. Ný lyf, nýjar aðferðir í skurðlækningum og líffæraflutningar hafa gefið mannskepnunni ótal vopn til að berjast gegn eða fresta vísum dauða. Nýjustu fregnir af meðhöndlunum lífshættulegra bráðatilfella herma að nú sé hægt að vekja fólk aftur til lífs eftir allt að þriggja tíma dauða. Ótrúlegt?

Það er ótrúlegt. En þetta staðhæfðu vísindamenn við Pitt´s Safar miðstöðina í Oakland fyrir stuttu á ráðstefnu sem haldin var í University of Pittsburgh. Pitt´s Safar miðstöðin sérhæfir sig í endurlífgunarrannsóknum og telja þeir sig hafa fundið upp aðferð til þess að endurlífga hunda allt að þremur tímum eftir að þeir hafa verið úrskurðaðir látnir (clinically dead). Með því er átt við að engin hjartavirkni, öndun eða heilavirkni sé til staðar.

Standa vonir þeirra til að geta hafið tilraunir á mönnum innan árs. Í framhaldi sjá þeir fyrir sér að geta umbylt bráðaaðhlynningu fólks sem fer í hjartastopp vegna mikils blóðmissis. Hermönnum í bardaga og fórnarlömbum byssuskota og hnífastunga blæðir t.d. oft til dauða einfaldlega vegna þess að hjúkrunarfólk hefur ekki nægan tíma til að framkvæma munn-við-munn endurlífgun eða koma höndum yfir blóð til að bæta upp missinn. Talið er að um 50 þúsund Bandaríkjamenn láti lífið árlega af þessum sökum, og er þetta ein helsta orsök dauða meðal hermanna sem látast í átökum.

Rannsóknin er byggð á hugmyndum Pitt Safar (sem áðurnefnd miðstöð er nefnd eftir) um ‘the big chill’, en þær byggðust á því að sprauta ískaldri saltlausn inn í æðakerfið þannig að líkamshiti færi úr 37 °C niður í um 10 °C, en með þessari kælingu væri hægt að kaupa tíma til að koma þeim slasaða á sjúkrahús. Þá væri sjúklingnum haldið köldum í smá tíma, meðan komist væri að upptökum blæðingar og gert við það nauðsynlegasta. Heitu blóði væri síðan dælt hægt aftur í líkamann og rafskaut sett að hjartanu.

Áður höfðu vísindamennirnir reynt þessa aðferð og komist að því að heilir tveir tímar gætu liðið frá klínískum dauða til vel heppnaðrar endurlífgunar. Með því hinsvegar að bæta í saltlausnina örlitlu magni af glúkósa og uppleystu súrefni gátu þeir endurlífgað án nokkurs heilaskaða um 75% þeirra hunda sem tilraunin var gerð á.

Vísindamennirnir þurfa sjálfsagt að svara mörgum spurningum áður en þeir geta farið að gera slíkar tilraunir á mönnum. Hinsvegar ætti ekki að vera nokkur spurning að slík tilraun- eða úrræði við annars bráðum dauða getur ekki annað en þótt kostur í stöðunni. Komi hún upp, er víst litlu að tapa.

Heimild:

Pittsbourghlive.com

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.