Þetta eru óvenju sérstakir tímar hjá fjölmiðlunum. Svar þeirra við asanum í samfélaginu er að bæta í og stofna nýja miðla. Enda veitir ekki af þegar hvert stórmálið rekur á fjörur landsmanna dag eftir dag. Hin svokallaða gúrka hefur nánast verið úrskurðuð látin.
Ég heyrði einhvers staðar að blaðamönnum hefði fjölgað um 20 prósent á fáeinum árum. Það eru stórkostlegar fréttir fyrir þá sem hafa próf í sagnfræði, stjórnmálafræði og hagnýtri fjölmiðlun. Að sama skapi hlýtur þetta að vera reiðarslag fyrir þá sem hafa betri próf og eiga meiri möguleika að auðgast því nú mun umfjöllun um ríka fólkið verða enn meiri.
Baugsmálið mun leika við skynfæri fólks næstu mánuðina eða árin. Morgunblaðið hóf sína umfjöllun um málið með því að gefa út sérstakt aukablað um ákærur á hendur forsvarsmönnum Baugs. Engin skemmtilesning – frekar skyldulesning eins og Íslendingasögurnar í gamla daga.
Útrásin og stórfelld uppkaup íslenskra kaupahéðna á eigum útlendinga, sem hafa ekki hundsvit á bisness, taka æ meira pláss hjá fjölmiðlunum. Það er vonandi að þetta haldi áfram, enda styrkir þetta íslenska þjóðarvitund og stöðu smáþjóðarinnar. Ekki síst þar sem útlenskir fjölmiðlar reyna hvað eftir annað að brjóta niður glæstar áætlanir auðjöfrana íslensku. Furðulegt hvað öfundin og forvitnin leika stórt hlutverk fyrir utan landssteinana.
Fjölmiðlar mega hins vegar ekki gleyma sér í stóru málunum. Huga þarf að megin undirstöðu samfélagsins – nefnilega vinnunni. Hálfnað verk þá hafið er, segir máltækið. Maður skilur ekki þessa endalausu áráttu að fjalla um ferðalög og skemmtanir. Þessi stundargleði skilar litlu þegar uppi er staðið nema háum vísareikningi og slæmum höfuðverk. Hlutverk fjölmiðla er þess vegna að hvetja landsmenn áfram til vinnu og uppbyggingar í samfélaginu. Sveifla haka og rækta nýjan skóg.
Þar er nefnilega komin ein skýring fyrir fjölgun nýrra miðla að undanförnu. Hagvaxtarskeiðinu má ekki ljúka. Ef svo fer þá er hætt við að það bitni harðast á fjölmiðlunum sjálfum.
- Íslenskir bankar og útlendingar - 22. júní 2021
- Hitnar í ofnunum - 21. apríl 2021
- Kynslóðaskipti í sjávarútvegi - 22. mars 2021