Stór og mikil knattspyrnumót eru haldin víða um land fyrir alla alla aldurshópa og bæði kyn. Yngstu krakkarnir sem leggja land undir fót eru ekki nema 5-6 ára gömul og þau elstu á 15.-16. ári. Nú nýverið lauk frekar vel heppnuðu móti í Vestmannaeyjum, svokölluðu Shell-móti, þar sem 9-10 ára pollar (og einstaka stúlkur) öttu kappi við jafnaldra sína frá öðrum liðum og landshlutum. Ég er svo heppinn að hafa þann starfa að þjálfa þessa gutta og fæ því tækifæri til þess að ferðast með þeim og reyna að gera minninguna eins ánægjulega og mögulegt er. Það er þó alveg ljóst að þvílíkt ferðalag, með 41 polla, 10 fararstjóra og 2 þjálfara, verður ávallt ævintýri þar sem að skondin atvik og skemmtilegar sögur verða til. Hér fylgir ein slík og má hafa hvoru tveggja gagn og gaman af þessu skemmtilega tilviki
Það var á nýliðnu, umræddu Shell-móti sem að ég og samstarfsmaður minn vorum að stýra liði K.A. B2 (en drengjunum er raðað í lið í stafrófsröð, a-b-c o.s.frv., í þessu tilviki vorum við með tvö b-lið) í leik um 9-10 sæti á mótinu.
Einn drengjanna okkar skeiðaði upp völlinn og var að okkar viti augljóslega kominn inn í vítateig þegar honum var kastað í jörðina af einum mótherjanum. Dómarinn blæs hátt og snjallt í flautuna en okkur til forundrunar dæmir hann einungis aukaspyrnu. Okkur þjálfurunum varð svo mikið um við þessa ákvörðun að við lögðumst á eitt við að heimta vítaspyrnu þrátt fyrir að slíkar kröfur beri sjaldan eða aldrei árángur auk þess að vera slæmt fordæmi fyrir drengina ungu.
Við komumst þó fljótt að því að markvissar og ítrekaðar fyrirskipanir okkar til drengjanna, um að ákvörðun dómarans sé heilög og að aldrei ætti nokkur þeirra að efast um hana né sýna dómaranum óvirðingu, hefðu borið góðan ávöxt. Einn pollanna hrökk upp við mótmæli okkar þjálfaranna, þaut í áttina til okkar og styllti sér upp beint fyrir framan okkur og sagði hátt og snjallt. ,,Strákar veriði rólegir og hagið ykkur skikkanlega”.
Ég veit ekki hvort lesendur hafi oft lent í því að láta 9 ára strákgutta reka ofan í sig en við stóðum þarna eftir tveir fullorðnir mennirnir, rauðir upp fyrir haus við skömmuðumst okkar svo mikið og reyndum eftir fremsta megni að bjarga því sem eftir var af stoltinu. Eftir leikinn komumst við þó að þeirri niðurstöðu að við gætum verið mjög svo sáttir enda hefði þarna komið í ljós hversu ótrúlega vel strákarnir hlusta á okkur og læra með því rétta og góða hegðun á knattspyrnuvellinum. Því verður þó ekki neitað að þarna fengum við glæsilegt dæmi um það að stundum er það eggið sem kennir hænunni.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010