Á Íslandi og víðar koma andstæðingar beins lýðræðis oftast úr röðum íhaldsmanna meðan frjálslyndir vinstrimenn eru því hvað mest fylgjandi. Í þessu felst ákveðin þversögn enda sýnir reynsla annarra þjóða að mun erfiðara sé að koma á breytingum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu en þing.
Eitt af þeim ríkjum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tiltölulega tíðar er Ástralía. Ég hitti nýlega ástralskan laganema og ræddi við hana um ýmis mál, m.a. um evrópurétt. Hún sagðist öfunda Evrópu af Mannréttindadómstólnum. Ég spurði þá hvort Ástralía hefði engan slíkan dómstól og þá svaraði hún mér: „Það eru engin mannréttindi í Ástralíu.“
Þegar Stjórnarskrá Ástralíu var samin um aldamótin 1900 þótti engin ástæða til að setja inn í hana mannréttindakafla. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til að bæta slíkum kafla við en þær allar mistekist, til dæmis árið 1988 þegar Ástralíubúar kusu um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þeir vildu setja hann inn. Tillaga var felld með um 70% atkvæða.
Af þeim 43 þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið í Ástralíu á seinustu öld hafa einungis átta endað með jái. Svipaða sögu er að segja frá öðrum löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðar, t.d. Sviss og Bandaríkjum, alls staðar eiga jáin erfitt uppdráttar. Jáin, tillögur sem miða að breytingum á núverandi ástandi, verða helst að mælast með yfir 65% fylgi áður en kosningabaráttan hefst til að eiga einhverja möguleika.
Stjórnmálamenn virðast almennt nýjungagjarnari en fólkið sem þá kýs. Tökum Evrópumálin sem dæmi. Líklegast var öruggur þingmeirihluti fyrir inngöngu Norðmanna inn í Evrópusambandið í bæði skiptin sem ESB-aðildin var felld þar í landi. Sömuleiðis hefðu þjóðþing Dana og Svía ekki átt í minnstum vandræðum með að samþykkja upptöku Evrunnar. Jafnvel breska þingið gæti líklegast samþykkt Evruaðild Breta, þrátt fyrir að engar líkur eru fyrir því að meirihluti verði fyrir slíkri ákvörðun meðal Bretanna sjálfra á næstu áratugum.
Margir íhaldsmenn virðast óttast það að með beinu lýðræði muni „þjóðin“ gjörsamlega fríka út og kjósa yfir sig hvert flippfrumvarpið á fætur öðru. Miðað við reynslu erlendis frá mundi slíkt kerfi frekar hægja á breytingum en hitt. Á sama hátt er ljóst að mörg stefnumál „frjálslyndra vinstrimanna“ ættu síst meiri möguleika í beinni kosningu meðal landsmanna en í atkvæðagreiðslu á Þingi.
Hins vegar gefa þær fáu beinu atkvæðagreiðslur sem farið hafa fram hér á landi ekki til kynna að hér sé sérstaklega erfitt að koma málum í gegn. Íslendingar kusu með vínbanni, með sambandslögunum, gegn þegnskylduvinnu, með áfnámi vínbands [skemmtilegt] og með sjálfstæði. Síðan hafa Reykvíkingar með flutningi flugvallarins, mörg sveitarfélög kusu á sínum tíma með opnun áfengisútsölu og flestir íbúar sveitarfélaga kjósa iðulega með sameiningu þeirra (þótt stuðningsmennirnir séu reyndar hlutfallslega fæstir í fámennustu sveitarfélögunum sem skýrir hve brösulega gengur stundum að sameina þau).
Kannski eru Íslendingar þá upp til hópa meira Já-fólk en aðrar þjóðir? Um það er erfitt að fullyrða meðan fleiri og nýlegri gögn (úrslit atkvæðagreiðsla liggja ekki fyrir). Allavega næst þegar við lesum að 60% þjóðarinnar vilji breyta hinu eða þessu atriði, sem engin umræða hefur farið fram um, þá skulum við hafa í huga að þetta þýðir að líklega yrðu sambærileg tillag felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef til hennar kæmi.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021