Fyrir nokkrum árum tók undirritaður sig til og fór að gagnrýna í miklum mæli blaðamennskuna sem þá var að ryðja sér til rúms, aðallega hjá Séð og heyrt og DV. Gagnrýndi undirritaður á ýmsum vettvangi það virðingarleysi sem þessir fjölmiðlar sýndu friðhelgi einkalífs almennings í landinu. Óhætt er að fullyrða að þessi gagnrýni hafði engin áhrif. Gengu þessir fjölmiðlar alltaf lengra og á endanum kaffærðust flestir þ.á m. undirritaður og dofnuðu gagnvart þessari blaðamennsku enda birtist nýtt, ferskt og harðara brot nánast í hverri einustu viku.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Hefur stjórnleysið í blaðamennsku stigmagnast hægt og bítandi og er fjölmiðlaheimurinn nú orðinn einhvers konar lagalegt villta vestur. Telja sumir fjölmiðlamenn sig geta komist upp með að birta hvað sem þeim sýnist um náungann, yfirleitt í skjóli nafnleyndar, án þess að þurfa nokkurn tímann að sæta ábyrgð gjörða sinna. Af þeim sökum ríkir algjört ábyrgðar- og virðingarleysi hjá sumum fjölmiðlum gangvart viðmælendum sínum og viðfangsefnum.
Það verður að teljast kaldhæðnislegt að ítrekuð gagnrýni á viðkomandi fjölmiðla virðist hafa forhert þá frekar en hitt. Þegar þeir voru gagnrýndir fyrir að brjóta siðareglur Blaðamannafélags Íslands þá bjuggu þeir bara til nýjar reglur sem leyfðu þeim allan fjandann. Þegar þeir voru gagnrýndir fyrir að það væri engin fréttapunktur í umfjöllunum þeirra um viðkvæm einkamál fólks og þær ættu því ekkert erindi til almennings þá teygðu þeir og rýmkuðu fréttahugtakið þannig að nú er allt sem þeim dettur í hug “frétt”.
Það er löngu ljóst að nýrra leiða er þörf til að sporna við þessu ástandi í fjölmiðlaheiminum og því var það afar kærkomið þegar fréttir bárust af því að landsþekktur poppari ætlaði að draga einn af þessum fjölmiðlum fyrir dóm vegna fréttaflutnings hans. Hafði fjölmiðillinn annars vegar birt myndir af viðkomandi poppara í bifreið sinni undir fyrirsögninni “Fallinn”. Höfðu viðkomandi myndir verið teknar úr launsátri. Hins vegar hafði fjölmiðillinn birt fréttir af meintu framhjáhaldi fyrrverandi eiginkonu hans.
Að vanda hafa forsvars- og fjölmiðlamenn hjá viðkomandi fjölmiðlum tekið gagnrýninni og fréttum af fyrirhugaðri málssókn digurbarkalega. Hafa sumir þeirra jafnvel fullyrt að popparinn muni ekki hafa erindi sem erfiði fyrir dómi. Þetta verður að teljast töluverð bjartsýni. Það er nefnilega a.m.k. tvennt sem gerir það að verkum að góðar líkur eru á því að fjölmiðillinn hljóti áfellisdóm.
Í fyrsta lagi ber að nefna dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Karólínu prinsessu af Mónakó gegn Þýskalandi frá 24. júní 2004. Mannréttindadómstóllinn taldi í dómi sínum að 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs hefði verið brotin þar sem þýska ríkið hefði ekki gert nóg til að vernda Karólínu Mónakóprinsessu gegn ágangi fjölmiðla. Höfðu myndir verið teknar af henni úr leyni þar sem hún var á einkabaðströnd. Sagði dómstóllinn að meginviðmið varðandi mat á því hvort myndbirting væri heimil fælist í því hvort hún geti talist framlag til umræðu sem varði almenning. Minna máli skipti hvar myndirnar væru teknar. Einstaklingar, jafnvel þótt frægir væru, ættu ekki að þurfa að sæta því að myndir væru birtar af þeim, án þeirra samþykkis, þótt þeir létu sjá sig á almannafæri t.d. í búðarferð, á baðströnd, á skíðum eða á veitingastað. Öðru máli myndi gegna ef viðkomandi væru í opinberum erindagjörðum af einhverju tagi, til dæmis ef þeir kæmu fram sem fulltrúar stofnana eða félagasamtaka eða væru þátttakendur í fréttnæmum viðburðum.
Umrædd myndbirtingin af popparanum felur því í sér brot á réttindum hans samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu eins og hún hefur verið skýrð af Mannréttindadómstól Evrópu. Í því samhengi verður að minna á að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur lagagildi hér á landi. Hæstiréttur hefur ítrekað litið til hans og dómafordæma Mannréttindadómstólsins í úrlausnum sínum og hefur jafnframt túlkað stjórnarskrá íslenska lýðveldisins með hliðsjón af honum. Íslenska ríkið er jafnframt skuldbundið að þjóðarrétti til að tryggja þegnum sínum vernd samkvæmt sáttmálanum. Það er því afar líklegt að Hæstiréttur myndi dæma í samræmi við dóm Mannréttindadómstólsins frá 24. júní 2004.
Í öðru lagi ber að nefna XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs en hann er afar hliðhollur popparanum þegar kemur að birtingu viðkvæmra upplýsinga um einkalíf hans. Samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga skal hver sá sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Það er merkilegt að í umfjöllun fræðimanna um þetta ákvæði þá eru upplýsingar um fjölskylduerjur, skilnað og framhjáhald iðulega nefndar sem dæmi um einkamálefni sem falli innan verndarsviðs ákvæðisins. Það verður því að teljast afar líklegt að Hæstiréttur myndi taka í sama streng.
_ _ _ _ _ _ _
Lögsókn á hendur fjölmiðlum er orðin löngu tímabær hér á landi og vonandi lætur popparinn verða af því að fara með málið alla leið. Það hefur einfaldlega ekkert annað virkað til þessa. Gagnrýni hefur reynst gagnslaus og alltaf virðist nóg af fólki vera tilbúið að borga fyrir að fá að hnýsast í einkalíf náungans. Dómstólar verða því að draga línu í sandinn og skera úr um hversu langt fjölmiðlar megi ráðast inn í friðhelgi einkalífs almennings í landinu. Þeir verða að veita okkur einhverja vernd gagnvart þessum stanslausu árásum í einkalíf okkar. Ef dómstólar fá svona mál á borð til sín þá er loksins hægt að koma lögum yfir villta vestrið.
Þá fyrst er fógetinn kominn í bæinn.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020