Stuart Drummond – Borgarstjóri Hartlepool.
|
Segja má að margir þeirra sem sækjast eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borginni eru svona menn gamalla tíma. Eða aðallega að þeir séu menn. Karlmenn. Og það er ekkert meira „last-year“ en að vera karlmaður í stjórnmálum í dag. Mér er reyndar alveg sama, í xilljón ár voru karlmenn við völd bara út af því að þeir voru karlmenn, getum við ekki gefið konum einn svona „rebound“-áratug? Og svo þegar búið verður að breyta rauða krossinum í íslenska fánanum í bleikan, þá getum við loksins farið að meta fólk eftir einhverju öðru en hvernig það losar þvag.
En hvaða eiginleikum viljum við að sá sem stýrir borg sé gæddur? Í þessu samhengi er fróðlegt að líta til reynslu annarra borga. Þá í „nágrannalöndunum“ alræmdu.
Borgin Hartlepool í Norður-Englandi hefur svipaðan íbúafjölda og Reykjavík (um 88 þús.) Fyrir þremur árum stóðu íbúar þess ágæta bæjar einmitt fyrir svipaðri spurningu og þeirri sem nú nagar Reykvíkinga. „Hvaða framsýni einstaklingur á að stýra bænum okkar inn í tuttugustuogfyrstu öldina?“
Þeir völdu manninn í apabúningnum.
Þeir sem fylgdust með kosningavöku fyrir bresku þingkosningar tóku eflaust eftir ýmsum fuglum í framboði. Sumt af þessu fólki var einfaldlega geðveikt, annað vildi nota tækifæri til að kynna sig og eitthvað tiltekið málefni. Dæmi um þetta eru svona „Björgum spítalanum“-flokkurinn, eða „Enga hraðbraut í gegnum varpsvæðið“-framboðið.
Það var eflaust blanda af hvoru tveggja, almennri geðveikri og þörf fyrir athygli sem ýtti Stuart Drummond, þá betur þekktum sem „H’Angus the Monkey“ út í baráttu um borgarstjórastól Hartlepool. Apinn H’Angus var nefnilega lukkudýr bæjarliðsins Hartlepool FC. Og apanum H’Angusi datt í hug að borgarstjóraframboð sitt væri góð kynning fyrir Hartlepool FC. Hans eina málefni var að öll grunnskólabörn í Harlepool skulu fá gefins einn banana á dag.
Skemmst er frá því að segja að i Apinn H’Angus sigraði í kosningunum með 600 atkvæða mun.
Vitrir stjórnmálafræðingar mátu það svo að kosning apa í þetta embætti endurspeglaði ákveðna þreytu fólks í garð hefðbundinna stjórnmálaflokka. (Nó sjitt)
Það sem er enn ótrúlegra er að Apinn H’Angus/Stuart Drummond hefur staðið sig ágætlega sem borgarstjóri Hartlepool. Hann sótti námskeið í stjórnun og myndaði einhver þverpólitísk bandalög sem gerðu honum kleift að stýra bænum. Glæpatíðni í bænum hefur lækkað um 20% á seinustu þremur árum og yfirvöld gefa stjórnsýslu bæjarins toppeinkun.
Nú er spurning hvaða lærdóm megi draga af þessari sögu. Ætli hann sé ekki sá að hvaða idjót sem er getur stýrt bæjarfélagi með hæfilegum undirbúningi. Er þá bara málið senda Skuldahalann á kvöldnámskeið í stjórnun og opinberri stjórnsýslu og horfa á hann rúlla upp kosningunum?
Í maí síðastliðnum var kosið aftur í Hartlepool. Stuart Drummond náði endurkjöri með um 10.000 atkvæða mun.
Heimild: SocietyGuardian
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021