Kína – risinn í austri

Mikið hefur verið fjallað um Kína undanfarna mánuði í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til landsins í síðasta mánuði, ásamt fylgdarliði. Umfjöllunin hefur að megninu til snúist um viðskiptatækifæri Íslendinga í landinu, sem er gott og vel, en í þessari grein langar mig að fjalla um nokkrar staðreyndir Kína, hvað varðar land og þjóð.

Mikið hefur verið fjallað um Kína undanfarna mánuði í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til landsins í síðasta mánuði, ásamt fylgdarliði. Umfjöllunin hefur að megninu til snúist um viðskiptatækifæri Íslendinga í landinu, sem er gott og vel, en í þessari grein langar mig að fjalla um nokkrar staðreyndir Kína, hvað varðar land og þjóð. Landið er framandi í hugum margra Íslendinga, enda í fjarlægum heimshluta og yfir því ríkir ákveðin dulúð.

Í Kína búa flestir jarðarbúar í einu landi eða um 1,3 milljarður, sem er fjöldi sem erfitt getur reynst fyrir Íslending að meðtaka. Shanghai er stærsta borgin, en Peking er höfuðborg landsins með rúmlega 13. milljónir íbúa og á þriðju milljón ökutækja sem mörg hver eru skemmtileg og ekki að finna annarsstaðar. Rafknúnir hjólhestar eru mjög algengir og leigubílahjól – þar sem farþegarnir sitja í litlum kassa aftan á, eru dæmi um fararskjóta. Stærð landsins er um 9.6 milljón ferkílómetrar og eiga 15 lönd landamæri að landinu. Opinbera tungumálið kallast mandarin og er auðkennt af táknum, en ekki bókstöfum. Flestir Kínverjar eru búddatrúar, en einnig eru margir sem fylgja daóisma, íslam og kristni trú.

Mao Zedong lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína þann 1. október 1949 á Torgi hins himneska friðar í viðurvist fjölda fólks. Upp frá því hefur kommúnistaflokkurinn verið við völd, en hann er eini viðurkenndi flokkurinn í landinu. Hann var stofnaður árið 1921 og eru félagar í honum tæplega 70. milljónir. Kína er kommúnistaríki undir stjórn kommúnistaflokksins. Æðsti maður flokksins er núverandi forseti landsins Hu Jintao, en hann er var kosinn af þinginu 15. mars 2003. Kína er skipt upp í 23 stjórnsýsluhéruð og fimm sjálfstjórnarsvæði; Guangxi, Nei Mongol, Ningxia, Xinjiang, Xizang (Tíbet). Fjórar borgir heyra beint undir ríkisstjórnina, en það eru Peking, Chongizing, Shanghai og Tianjin. Einnig eru tvö sérstök stjórnsýslusvæði, Hong Kong og Macao.

Frægustu kennileiti Kína eru eflaust Kínamúrinn og Torg hins himneska friðar, en fjöldi annarra staða er á heimsminjaskrá UNESCO , líkt og Þingvellir á Íslandi. Kínamúrinn er talinn vera um 7. þúsund kílómetra langur og var upphaflega reistur til að koma í veg fyrir innrás Mongóla. Múrinn er í rauninni margir múrar og eitt af sjö undrum veraldar. Torg hins himneska friðar hefur í seinni tíð verið þekkt sem staður uppreisnar stúdenta árið 1989. Torgið er stórfenglegt að sjá, enda stærsta borgartorg í heimi. Umhverfis það eru fjórar risastórar byggingar og súla á því miðju. Við annan endann er Forboðna borgin og á henni framanverðri hangir gríðarstór mynd af Mao Zedong sem enn er í hávegum hafður í landinu.

Kína er fjarlægur framandi staður sem áhugavert er að skoða nánar. Ég held að við getum lært margt af Kínverjum og þeir af okkur litlu smáþjóðinni í Atlantshafinu. Hagvöxturinn í landinu hefur verið gríðarlegur síðustu ár. Líklegt er að Kína eigi eftir að styrkjast á alþjóðavettvangi á komandi árum og verða meira áberandi í umræðunni. Það verður áhugavert að fylgjast með þróuninni á næstu árum, sérstaklega ef Ísland gerir fríverslunarsamning við landið, fyrst Evrópuþjóða.

Heimildir:
China Internet Information Center
CIA – World Fact Book

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.