2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar er tilgangslaus
|
Það er höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar, að megindrættir stjórnskipulagsins og grundvallarréttindi borgaranna eru ákveðin í sérstakri stjórnarskrá, sem sett er með öðrum og vandaðri hætti en almenn lög. Stjórnarskráin er því aðalheimild um íslenska stjórnskipun og rétthærri öðrum réttarheimildum. Almennt er æskilegt að stjórnarskrá sé hnitmiðuð og skýr lesning sem taki ekki breytingum eftir því hverjir fara með völdin hverju sinni heldur sé klettur í ólgusjó stjórnmálanna sem almenn sátt ríkir um.
Seinni málsgrein 65. gr. stjórnarskrárinna segir að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður árin 1994-1995 var ekki gert ráð fyrir 2. mgr. 65. gr. í frumvarpi til breytingar á stjórnskipunarlögum sem lagt var fram við fyrstu umræðu á Alþingi. Enda sagði í 65. gr. (sem nú er 1. mgr. 65. gr.) að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Umræddri 2. mgr. var bætt við 65. gr. eftir að frumvarpið var lagt fram að því virðist án ítarlegrar umfjöllunar. Í nefndaráliti frá stjórnarskrárnefnd sem lagt var fram við 2. umræðu á Alþingi segir að nefndinni hafi borist gagnrýni um að það komi ekki fram í greininni (65. gr.) nægilega skýrt ákvæði um jafnrétti karla og kvenna. Þykir undirrituðum það sérstæð gagnrýni og reyndar út í hafsauga enda má lesa út úr greininni (núverandi 1. mgr. 65. gr.) að allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis.
Ef skoðaðir eru tveir grundvallar mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að til samburðar, Mannréttindasáttmáli Evrópu (sem reyndar er lögfestur með lögum nr. 62/1994) og samning Sameinuðu þjóðanna um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi, er svipað ákvæði og 2. mgr. 65. gr. hvergi sjáanlegt.
Í 14. gr. MSE segir:
Réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningi þessum, skulu tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.
Í 26. gr. SBSR segir:
Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
Í þessum greinum er ekki spanderað sérstakri málsgrein til að impra á jafnrétti kynjanna enda augljóst af lesningu þeirra að óheimilt er að mismuna einstaklingum á grundvelli kynferðis. Það sama má segja eftir lesningu á 1. mgr. 65. gr. stjónarskrárinnar. 2. mgr. 65. gr. er fyrst og fremst pólitískt ákvæði sem ætlað er að sýna vilja stjórnarskrárgjafans til að jafna hlut karla og kvenna. Ákvæðið bætir í raun engu efnislega við þar sem allt sem segja þarf kemur fram í 1. mgr. 65. gr. Ákvæðið er að mati undirritaðs klassískt dæmi um pólitíska rétthugsun sem fáir hafa sjálfsagt þorað að fetta fingur út í af hræðslu við að vera úthrópaðir úrtölumenn og kvenníðingar.
Vonar undirritaður að stjórnarskrárgjafinn hafi í huga við komandi stjórnarskrárbreytingar að ákvæði stjórnarskráa eiga að vera hnitmiðuð og skýr og þar á ekki að birtast pólitísk rétthugsun hans hversu virðingarverð og réttlát sem sú hugsun er nema einhverjar rökrænar ástæður búi þar að baki.
Að lokum er rétt að taka fram að undirritaður er efnislega sammála 2. mgr. 65. gr. en er fyrst og fremst ósáttur við framsetninguna.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009