Stjórnarskrá Íslands er byggð á Grundvallarlögunum dönsku, sem eru undir sterkum áhrifum belgísku stjórnarskrárinnar frá 1830, sem aftur var undir sterkum áhrifum frönsku stjórnarskrárinnar síðan á tímum byltingarinnar. Stjórnarskráin er ekki hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og hefur yfirleitt ekki verið sérstaklega áberandi í stjórnmálaumræðu hér á landi, þrátt fyrir að harkaleg átök hafi til dæmis verið um kvótakerfið, fyrirkomulag greiðslna til öryrkja og fjölmiðlamálið. Ástæðurnar eru eflaust margar, t.d. einsleitni þjóðarinnar, sátt stjórnmálaflokka um þær breytingar sem gerðar hafa verið og sú staðreynd að stjórnarskrá var upphaflega krafa í sjálfstæðisbaráttunni og síðar, með tilkomu hennar, nýtt sem tæki í þeirri baráttu. Allt frá lýðveldisstofnun hefur staðið til að endurskoða hana og hefur henni verið breytt nokkrum sinnum. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun hennar enn einu sinni.
Að mínu áliti er stærsti gallinn á stjórnarskránni sá, að of auðvelt er að breyta henni. Stjórnarskránni verður breytt eftir að frumvarp til stjórnskipunarlaga er samþykkt og þing kemur saman á ný og staðfestir breytinguna. Hingað til hefur seinni atkvæðagreiðslan einungis verið hreint formsatriði. Með öðrum orðum er ekki næg pólitísk festa í stjórnarskránni, hún veitir borgunum ekki nægilegt öryggi. Ekki vegna þess að mannréttindaákvæðum hennar sé svo ábótavant – heldur vegna þess að formlega er tiltölulega auðvelt að nema þau úr gildi.
Þegar ráðist er í breytingar á stjórnarskránni tekur þingheimur sig saman og ákveður það fyrir okkur. Nefnd er sett á fót þar sem breytingarnar eru ákveðnar, frumvarpið er flutt og samþykkt rétt fyrir þinglok. Það er síðan aftur samþykkt þegar þing kemur saman á ný. Það hefur hingað til ekki skipt máli hvaða stjórnmálaflokkar mynda meirihluta. Vissulega gæti sú staða komið upp að tekist væri á um stjórnarskrárbreytingar í þingkosningum. Ég tel æskilegast að við stjórnarskrárbreytingu ætti að þurfa samþykki aukins meirihluta þingmanna. Síðan ætti að þurfa sérstaka kosningu um stjórnarskrábreytinguna þar sem krafist væri samþykkis aukins meirihluta atkvæðisbærra manna. Að því fengnu yrði það frumvarp til stjórnskipunarlaga að vera samþykkt enn einu sinni af meirihluta nýkjörins Alþingis.
Aðrar breytingar sem æskilegt væri að gerðar yrðu á sama tíma, væri að tryggja betur þrískiptingu valdsins; setja þyrfti opnunarákvæði í stjórnarskránna sem njörvaði niður hversu mikið vald mætti framselja. Skipta ætti þinginu aftur í tvær deildir til að tryggja vandaðari löggjöf. Tryggja þarf að réttindi einstaklingsins gangi alltaf framar vilja ríkisins; áherslubreytingin gæti t.d. falist í því að færa mannréttindakafla stjórnarskrárinnar fremst. Síðan þyrfti að hefta vald meirihlutans með því að gera ákveðnar pólitískar breytingar mjög vandasamar. Sérstaklega þær að breyta stjórnarskránni.
Stjórnarskrá er í eðli sínu samningur borgaranna um ríkisvald. Borgarnir framselja ákveðin hluta af sínum sjálfsákvörðunarrétti svo ríkið geti sinnt þeim skyldum sem lagt er á það. Með sífelldum endurskoðunum og viðbótum, er líklegt að viðhorfið færist í þá átt að um allsherjar afsal sjálfsákvörðunarréttar hafi verið um að ræða og einungis þau réttindi sem talin eru upp verði talin gilda. Slíkt má ekki gerast. Æskilegt er að hún sé einföld og í eðli sínu íhaldssöm, byggð á almennum reglum um frelsi, réttarríki og mannréttindi.
- Bankaleynd - 24. mars 2009
- Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við valdaskeið sitt - 12. febrúar 2009
- Hver vann? - 31. janúar 2009