Teheran hefur iðað af lífi undanfarna daga og vikur. Fólk hefur þyrpst út á götur til að sýna stuðning í verki við frambjóðanda sinn. Kosningabæklingum hefur verið dreift í miklu mæli, vestræn kosningaplaköt eru meira áberandi heldur en áður hefur þekkst og jafnframt hafa frambjóðendur verið duglegir við að notfæra sér netið, til að koma boðskap sínum á framfæri. Og jafnvel hinar ríkisreknu sjónvarpsstöðvar hafa verið sæmilega óhlutdrægar í kosningaumfjöllun sinni. Frá byltingunni árið 1979 hafa aldrei farið fram jafn spennandi og fjörugar kosningar eins og nú.
Sjö frambjóðendur voru á kjörskrá þegar gengið var til kosninga föstudaginn 17. júní. Það var strax ljóst að þessar kosningar yrðu frábrugðnar þeim fyrri sem hafa verið haldnar; venjulega hefur verið hægt að slá því föstu hver ynni áður en gengið væri til kosninga – en ekki þetta árið. Sigurvegarinn úr fyrri umferðinni – með naumum mun – var Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseti Írans á árunum milli 1989 til 1997. Útkoman var þó eitthvað lakari en búist hafði verið við. Skoðanakannanir höfðu verið að mæla fylgi Rafsanjani í kringum 30% en niðurstaðan var 21%. Skoðanakannanir í Íran hafa hins vegar sjaldan þótt mjög áreiðanlegar.
Í öðru sæti lenti svo – mjög óvænt – Mahmoud Ahmadinejad, núverandi borgarstjóri í Teheran frá því árið 2003, með 19,5% atkvæða. Það er kannski ágætis vitnisburður um það hversu óvænt þessi niðurstaða var, að Ahmadinejad og fólkið sem starfaði fyrir framboð hans, var ekkert búið að undirbúa hvernig það mundi bregðast við kosningaúrslitunum. Og kemur ef til vill ekki á óvart. Í skoðanakönnunum síðustu dagana fyrir kosningar benti ekkert til þess að Ahmadinejad yrði annar á eftir Rafsanjani. Vestrænir fjölmiðlar fjölluðu t.d. lítið sem ekkert um möguleika hans fyrir kosningarnar.
Það hefur aldrei áður gerst í íranskri stjórnmálasögu að forsetakosningar hafi þurft að fara í aðra umferð til að skera úr um sigurvegarann. Írönskum kjósendum mun bjóðast nokkuð skýr valkostur á morgun; á milli annaðhvort harðlínumanns (Ahmadinejad) eða umbótasinna og pragmatista (Rafsanjani). Helstu andstæðingar Ahmadinejad í Íran hafa lýst honum sem írönskum Talebana.
Sá málaflokkur sem íranskur almenningur lætur sig mestu varða í kosningunum eru efnahagsmál. Hagvöxtur hefur farið minnkandi, atvinnuleysi er talið vera um 20% og verðbólga er komin upp í 14%. Hagkerfið hefur ekki verið að skapa næg störf fyrir allt það unga fólk sem er að koma á vinnumarkaðinn, en helmingur þjóðarinnar er undir 25 ára aldri. Hlutur íranska ríkisins í hagkerfinu er í kringum 80%. Rafsanjani hefur talað um að vilja einkavæða afkastalítil ríkisfyrirtæki, en ef hann vinnur þarf hann að yfirbuga mikla andstöðu frá klerkunum gagnvart öllum slíkum ráðagerðum.
Í utanríkismálum hefur Rafsanjani sagt að hann vilji stefna að bættum samskiptum við Bandaríkin. Í nýlegu viðtali við USA Today sagðist hann vera sá aðili sem gæti endurreist samskiptin á milli þjóðanna, sem eru nánast engin um þessar mundir. Þrátt fyrir að Rafsanjani hefði ekki mikla möguleika á að breyta utanríkisstefnu Írans verulega, þá gæti sigur hans gefið Bandaríkjunum afsökun til að líta á Íran með nýjum augum og jafnvel gerst móttækilegri en áður til að taka upp einhverjar viðræður.
En það eru margir sem spyrja sig hvort forsetakosningarnar skipti í raun og veru einhverju máli – og þar á meðal eru íranskir umbótasinnar. Þrátt fyrir að kosningar séu haldnar er Íran vitaskuld langt frá því að vera raunverulegt lýðræðisríki. Völd forsetans og íranska þingsins eru mjög takmörkuð eins og hefur komið berlega í ljós í valdatíð Mohammad Khatami. Í forsetakosningunum 1997 og 2001 fékk Khatami yfirburðakosningu og voru miklar væntingar bundnar við hann. En hvað eftir annað samþykkti íranska þingið frjálslynd lög einungis til að sjá þeim að lokum hafnað af hinu valdamikla klerkaráði, með Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk, fremstan í flokki. Vonbrigðin með forsetatíð Khatami hafa því verið nokkur.
Þessi reynsla hefur fengið marga umbótasinna í Íran til að velta því fyrir sér hvort þeir ættu yfirhöfuð að taka þátt í kosningunum á morgun. Shirin Ebadi, sem fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2003 fyrir mannréttindabaráttu sína í Íran, hefur meðal annars lýst því yfir að hún ætli að sniðganga aðra umferð kosninganna. Margir segjast vera þreyttir á því að kjósa og hafa þar með veitt lögmæti sitt yfir ferlið, en fá aldrei neitt í staðinn.
Ray Takeyh, sérfræðingur um málefni Írans, hefur hins vegar bent á, að þrátt fyrir að Khatami forseti hafi ekki komið á þeim umbótum sem hann og stuðningsmenn hans hefðu viljað, þá hafi íranskt samfélag tekið breytingum síðustu átta ár. Stuðningur Khatami við borgaralegt samfélag og réttarríkið fékk marga Írani til að trúa því að þeir hefðu ákveðin réttindi sem ekki mætti taka frá þeim. Og þetta er þróun sem ekki verður hægt að stoppa héðan í frá.
Það er í raun ómögulegt að spá fyrir um úrslitin á morgun. Kosningaþátttaka á eftir að skipta miklu máli og þess vegna er mikilvægt að íranskir umbótasinnar sniðgangi ekki kosningarnar. Slíkt yrði aðeins vatn á myllu harðlínuaflanna. Sigur Rafsanjani er líklegri til að ýta undir þá hægfara þróun frjálslyndis í Íran sem Khatami kom af stað fyrir átta árum.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008