Í gær, þann 19 júní, voru 90 ár liðin síðan konur fengu kosningarétt. Markar þessi dagur því viss tímamót meðal kvenna því þennan dag var fyrsta skrefið af mörgum tekið til þess að jafna hlut kvenna og karla í þjóðfélaginu. Þessi barátta hefur verið löng og ströng og víst er að meirihluta þess tíma sem hún hefur átt sér stað hefur henni fylgt neikvæður blær. Mikið var gert til þess að þagga niður í “kvennavælinu” eins og það var kallað en sem betur fer, fyrir okkur öll, stóð baráttan stöðug og sterk öll þessi ár.
Jafnréttisumræðan hefur fylgt mér frá bernsku. Móðir mín var svokölluð “rauðsokka” sem gekk um með lyklakippu sem á stóð “fleiri konur á þing” og var morgunkaffið drukkið úr bollanum “sömu laun fyrir sömu störf”. Vera, tímarit fyrir konur var lesið eins og testamentið og pabbi var sendur í þjálfunarbúðir til þess að hann myndi læra að ryksuga og skúra. Ég og vinkonur mínar vissum um hvað málið snerist og vegna þeirrar hljóðlátu byltingar sem var í gangi á heimilum okkar gátum við nú farið á fótboltaæfingar með strákunum, leikið okkur með vörubíla og heimtað að að það yrði að kjósa stelpu og strák til skiptis í leikfimi. Þrátt fyrir ungan aldur þegar jafnréttisbaráttan stóð sem hæst, þá man ég eftir því að mér þótti gott að vita til þess að mamma mín stæði í víglínunni fyrir bjartari framtíð fyrir mig og vinkonur mínar. Ég ólst upp við það að ég gæti allt sem karlmenn gætu og þegar ég yrði stór væri mamma sterka búin að ryðja brautina og ég gæti orðið forsætisráðherra eða skipstjóri. Eins og sést, þá snerti jafnréttisbaráttan okkur öll á einhvern hátt.
Baráttumálin fyrir 20 árum síðan voru því miður mörg hin sömu og baráttumálin í dag. Lyklakippan er enn til og skilaboðin sem á hana eru letruð öskra á mig í hvert sinn sem ég sé hana, hversu mikið verk er enn óunnið. Hins vegar er kynslóðin á undan okkur búin að undirbúa jarðveginn til þess að ég og aðrar konur getum fengið alla okkar drauma uppfyllta án þess að þurfa í raun að gjalda fyrir kynferði okkar. Það má ekki gleymast. Sú staða sem við búum við í dag kom ekki af sjálfu sér heldur þurfti til þess mikla vinnu, mikinn dug og þor. Þá baráttu ber að virða og þakka. Nú er hins vegar komið að okkar kynslóð til að klára verkið.
Jafnréttisbaráttan er ekki af þeim meiði að einn daginn verði árar lagðar í bát og henni hætt. Jafnréttisbaráttan mun halda áfram í takt við það samfélag sem við búum við á þeirri stundu. Það þýðir hins vegar ekki að þær aðferðir sem notaðar voru þá, gagnist í dag. Það sem við konur af nýrri kynslóð þurfum að gera er í raun að líta í eigin barm og skoða það sem við getum sjálfar breytt. Þurfum við meiri kjark, þor, áræðni eða þurfum við jafnvel bara að hætta að vera svona rosalega samviskusamar?
Afhverju kvörtum við yfir því að það eru fáar konur á þingi, en erum ekki að stefna þangað sjálfar? Afhverju kvörtum við yfir því að það séu fáar konur í sjónvarpi, en komum svo ekki upp orði þegar myndavél er beint að okkur sjálfum? Hættum að benda á næsta mann og tökum framtíðina í okkar í eigin hendur.
- Galdrakonan og spilin - 5. mars 2021
- Bless (í bili?) - 20. janúar 2021
- Skötuboðið - 22. desember 2020