Miðað við tæknina sem til staðar er er ljóst að þjónusta við heyrnarlausa sjónvarpsáhorfendur hér á landi mætti vera mun betri. RÚV sýnir daglega einhverjar „Táknmálsfréttir“ þar sem karlar og konur veifa höndunum í fimm mínútur án þess að sýndar séu nokkur myndskeið, skýringarit eða neitt sem hugsanlega gæti skýrt fréttina betur. Þetta er álíka góð notkun á myndmiðli og ef íþróttafréttir í sjónvarpi fælust einungis í því að sýna Samúel Örn lesa úrslit leikja upphátt.
Annar staður þar sem pottur er brotinn er hinn óskiljanlega tíska að taka erlendar heimildarmyndir, henda út upprunarlega þulinum og láta í staðinn einhvern Íslending svæfa áhorfendur: „Ljónið eltir antílópuna uppi, hún missir jafnvægið og fellur til jarðar.“ Hvílík og önnur eins sóun á mannauði! Ekki nóg er að oft er fyrir vikið verið að „losa sig við“ þuli eins og til dæmis John Cleese sem margir væru til að heyra, heldur er peningum sóað í talsetningu og hluti þjóðarinnar getur ekki notið þáttanna fyrir vikið.
Margir íslenskir þættir eru reyndar textaðir á síðu 888. Sjálfum fyndist mér í raun ekkert að því að allt íslenskt efni yrði einfaldlega sent út textað, það myndi létta heilmörgum lífið, ekki aðeins þeim sem eiga við heyrnarvandamál að stríða. Til dæmis mundi þetta hjálpa útlendingum við íslenskunám, en þeir sem lært hafa erlend tungumál vita hve erfitt er fyrir byrjendur að skilja talmál, meðan ritmálið reynist mörgum léttara. Einnig er það oft ágætiskostur að geta horft á sjónvarpið hljóðlaust, til dæmis á krám sem spila háa tónlist eða heima seint á kvöldin þegar annað heimilisfólk sefur. Textað, þögult sjónvarpsefni er þeim nefnilega þeim jákvæðu eiginleikum gætt að trufla aðeins þá sem með því fylgjast en ekki alla aðra sem staddir eru á sama stað.
Farsælast held ég að væri að leggja niður sérstakar táknmálsfréttir og texta einfaldlega aðalfréttatímann. Auðvitað kostar þetta allt peninga en tökum eftir því að stærstur hluti frétta er tilbúinn fyrirfram svo að einungis þyrfti að hafa nokkra sekúndna töf á útsendingunni til að tæknimaðurinn hefði tóm til að slá inn setningar eins og „Jæja, Adolf, Hvað er að frétta af íþróttaheiminum?“
Auðvitað verður maður að gefa RÚV kredit fyrir það sem þeir eru að gera. Stöð tvö textar til dæmis ekki sitt íslenska efni, né heldur Sýn, SkjárEinn eða PoppTíví. Æ meira virðist vera textað á síðu 888 á seinustu árum og textar fréttanna eru nú aðgengilegar á netinu, svo að mörgu leiti hefur staðan batnað.
Hins vegar held ég að menn ættu að setja sér þau markmið að allt íslenskt sjónvarpsefni skuli í framtíðinni vera textað. Jafnvel væri allt í lagi að sú textun færi fram í almennri útsendingu þangað til að stafrænt sjónvarp nær fullri útbreiðslu hér á landi með öllum þeim möguleikum og valfrelsi áhorfenda sem slíkri tækni fylgja.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021