Mjúkur maður í harðneskjulegu umhverfi.
|
Íslenskt þjóðfélag er öðrum þræði þjóðfélag samhjálpar og jöfnunar. Þannig hafa íslenskir neytendur t.a.m. um árabil greitt bændum landsins ríflega 10 milljarða á ári í beina og óbeina styrki til þess eins að tryggja lífsviðurværi þeirra. Tekjujöfnun ríkisvaldsins teygir lamandi hönd sína allt of víða en það væri of langt mál að gera henni ítarleg skil í þessu snemmbúna og lauflétta þjóðhátíðarhelgarnesti. Einhver albesta og þarfasta hugmynd að breyttri skipan þjóðfélagsmála sem sett hefur verið fram á Deiglunni er hugmynd góðs manns um jöfnunarsjóð piparsveina. Jafnvel þótt svo hugmyndasmiðurinn hafi fyrir löngu síðan svikið lit og gengið á vit myrkra afla er engin ástæða til að láta umræðu um gott mál falla niður. Þörfin er líka brýn ef marka má nýlegar tölur frá Ráðgjafastofu heimilanna sem skjóta styrkum stoðum undir hugmyndina, en skv. tölum frá stofnuninni eru íslenskir piparsveinar ekki bara á góðri leið með pipra — þeir eru komnir langleiðina með að salta sjálfa sig í skuldum.
Líf piparsveinsins er að jafnaði dans á rósum og stærstu krísur mánaðarins snúast að öllu jöfnu um hvort nýta eigi björt sumarkvöld til barferða, golfferða eða uppáferða — t.d. upp á Esjuna sem skartar sínu fegursta í sumarsólinni! En eins og meðlimir hljómsveitarinnar Poison bentu réttilega á þá er engin rós án þyrna.
Frelsi piparsveina er hins vegar dýru verði keypt. Eðli máls samkvæmt eru grunnþarfir þeirra þær sömu og kvæntra manna: bíll, íbúð, matur, SÝN, tryggingar, dagblöð, internettenging, gin, tónik og aðrar nauðsynjar. Hins vegar er einn meginmunur á piparsveinum og spúsulingum: kostnaðurinn fellur á einn aðila í fyrrnefnda hópnum en skiptist á tvo aðila séu menn kvæntir. Það er jafndýrt að elda fyrir einn eða tvo og að sama skapi er jafndýrt að borga leigu fyrir tvo, ef þið skiljið hvað verið er að fara.
Jöfnunarsjóður piparsveina er þannig réttlætismál sem hefur fengið allt of litla athygli og tími til kominn að piparsveinar landsins þjappi sér saman — í óeiginlegri merkingu! — og knýi stjórnmálamenn til að taka á þessu óréttlæti í samfélaginu.
Nú kynnu einhverjir minnipokamenn og smásalir að benda á að jöfnunarsjóður piparsveina væri fáránleg hugmynd enda sé ekki um eiginlegan hóp manna að ræða sem deili sameiginlegum lyndiseinkennum. Það er hins vegar rangt og fullvíst að málstaðurinn njóti mikillar samúðar í samfélaginu enda þekkir allur þorri manna þetta vandamál — enda fæðast menn ekki kvæntir.
Flestir deyja hins vegar kvæntir.
Tilviljun?
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007