Umræðan um Kína og þá feiknarlegu möguleika sem landið býr yfir, er langt frá því að vera ný af nálinni: „Kína? Þar liggur sofandi risi. Látið hann sofa. Því þegar hann vaknar mun hann hreyfa heiminn.“ Í um tvö hundruð ár hefur Napóleon orðið að ósk sinni – en varla mikið lengur. Áframhaldandi uppgangur Kína er ekki lengur spádómur, heldur einfaldlega staðreynd. Og hvernig stefna Kína mun þróast á þessari öld mun ekki aðeins skipta máli fyrir sjálfa íbúa Kína, eða þjóðir Asíu, heldur fyrir allan heiminn.
Í Asíu er að verða til nýr veruleiki; valdið er smátt og smátt að færast frá Bandaríkjunum yfir til Kína. Þessi nýji veruleiki birtist meðal annars í því hvernig önnur ríki á svæðinu eru farin að horfa til Kína. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan, höfðu þau vaxandi áhyggjur af þeim möguleika að Kína yrði brátt að ráðandi afli í Asíu og byggi yfir hernaðargetu sem ógnaði öðrum ríkjum í kring. En þetta hefur að sumu leyti verið að breytast á tiltölulega skömmum tíma. Á síðustu árum hefur Kína bætt samskipti sín við fjölmargar þjóðir, með einmitt það að markmiði að nágrannar þeirra þurfi ekki að óttast aukin mátt þess.
Og þetta er farið að hafa áhrif á almenningsálitið ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Fleiri Ástralir segjast vera jákvæðir í garð Kína heldur en Bandaríkjanna, eða 69% á móti 58%. Aðrar skoðanakannanir í Suður-Kóreu, Taílandi og Filippseyjum sýna hið sama. Undantekningu á þessari þróun er hins vegar að finna í Japan og Taívan – og kemur kannski ekki á óvart. Allar þessar þjóðir eru dyggir bandamenn Bandaríkjanna og hafa reitt sig á veru þeirra á svæðinu til að tryggja frið og stöðugleika, allt frá árinu 1975.
Skortur á öflugum bandalagsríkjum hefur aftur á móti lengi verið vandamál fyrir Kína. Hingað til hafa helstu bandamenn þeirra á svæðinu verið Norður-Kórea, Myanmar og Pakistan. Sökum þessa hefur Kína átt litla möguleika á að mynda einhvers konar mótvægi gagnvart Bandaríkjunum. En undanfarið hafa stjórnmálatengsl Kína við þjóðir á borð við Rússland, Indland, Víetnam og Indónesíu tekið stakkaskiptum og hafa sjaldan verið betri. Fyrir um tveim mánuðum síðan skrifuðu Kína og Indland undir tímamótasamning sem kvað á um aukna samvinnu milli þjóðanna. En um árabil hafa þjóðirnar litið til hvors annars með tortryggni og háðu meðal annars stutt stríð vegna landamæradeilna árið 1962. Við undirritun samningsins lýstu leiðtogar ríkjanna því hins vegar yfir, að Kína og Indland væru strategískir samherjar (e. strategic partnership) en ekki mótherjar.
Þessi þróun sem hér hefur verið rakin, ásamt vaxandi áhyggjum af aukinni hernaðaruppbyggingu Kína, hefur leitt til þess að á síðustu mánuðum hefur sprottið upp mikil umræða í Bandaríkjunum um Kína og hvaða hættu – ef einhverja – Bandaríkjunum stafar af Kína í nálegri framtíð. Ummæli Rumsfeld fyrir stuttu á ráðstefnu í Asíu endurspegla þetta. Rumsfeld ásakaði þar Kína um að auka hernaðarútgjöld sín, á sama tíma og þau stæðu ekki frammi fyrir neinni verulegri hernaðarhættu. Þetta myndi einungis leiða til aukins óstöðugleika á svæðinu og kallaði fram spurningar um hver framtíðaráform Kína væru.
Á meðan hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum stóð sem hæst í kringum innrásirnar í Afganistan og Írak, færðist áherslan í utanríkisstefnu Bush stjórnarinnar frá Kína og Asíu til Mið-Austurlanda. En fyrir 11. september 2001 var Kína aftur á móti efst á forgangslista stjórnarinnar. Richard Haass, sem starfaði í utanríkisráðuneytinu þangað til hann lét þar af störfum í júní árið 2003, hefur sagt að innan stjórnarinnar hafi sú skoðun verið ríkjandi að Kína sé ógn við Bandaríkin – eða að minnsta kosti möguleg ógn.
Og núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezza Rice, sagði meðal annars í grein sem hún skrifaði í Foreign Affairs stuttu fyrir forsetakosningarnar árið 2000, að Kína væri „strategískur andstæðingur“ Bandaríkjanna, en ekki „strategískur samherji“ líkt og Clinton stjórnin hafi haldið fram. Ferð hennar til Asíu sl. mars var t.d. án efa farin í þeim tilgangi að senda ráðamönnum í Peking ákveðin skilaboð; styrkja bandalag Bandaríkjanna við Indland og Japan og sýna stuðning sinn við Taívan.
En að mati hins umdeilda – svo vægt sé til orða tekið – Robert D. Kaplans, er Bush stjórnin þó alls ekki að gera nóg. Í nýlegri grein sinni í The Atlantic Monthly, sem ber heitið „How we would fight China“ og hefur fengið mikil og hörð viðbrögð, útlistar Kaplan þar af hverju Bandaríkin þurfa að undirbúa sig undir komandi átök við Kína. Hernaðarsamkeppni á milli þjóðanna eigi eftir að vara út alla öldina og Kína verður óárennilegri andstæðingur heldur en Sovétríkin nokkurn tíma voru.
Sú ógn sem Kaplan, Rumsfeld og fleiri reyna að sýna fram á að stafi af hernaðaruppbyggingu Kína er ofmetin. Þrátt fyrir að útgjöld Kína til varnarmála hafi aukist að meðaltali um 10% undanfarin ár, þá eru heildarútgjöldin ennþá aðeins í kringum 10% – 15% af heildarútgjöldum Bandaríkjanna.
Kaplan, ásamt öðrum sem halda því fram að átök milli Kína og Bandaríkjanna séu óumflýjanleg, vísa iðulega til sögunnar máli sínu til stuðnings. Uppgangi Kína er þá oftar en ekki líkt við uppgang Þýskalands á tímabilinu 1870 til 1914. En eins og Henry Kissinger hefur meðal annars bent á, er ekki hægt að líkja þessu fyllilega saman. Hið evrópska valdajafnvægiskerfi á 19. öld gerði ráð fyrir því að stórveldin myndu verja hagsmuni sína með valdi, ef til þess kæmi. Hver þjóð áleit að stríð yrði stutt og eftir að því lyki, hefði strategísk staða þess batnað. En að ætla að nákvæmlega sama atburðarás yrði uppi núna, í alþjóðavæddum heimi með kjarnorkuvopn, er fáránlegt. Stríð á milli Kína og Bandaríkjanna er einfaldlega ekki valkostur; það mundi ekki standa uppi neinn sigurvegari.
Röksemdarfærsla Kaplans verður oft á tíðum fremur hlægileg þegar hann fer að útskýra hinar ómerkilegustu aðgerðir Kína sem ógn við Bandaríkin, í staðinn fyrir raunverulegan tilgang þeirra – að tryggja þá hagsmuni sem skipta Kína máli. Markmið Kaplan virðist fyrst og fremst vera að reyna að renna stoðum undir þær forsendur sem hann hefur þegar gefið sér. Með þessum hætti tekst honum að búa til óvin þar sem enginn óvinur er fyrir hendi. Og það hvernig þjóðir skynja hvor aðra skiptir máli í alþjóðastjórnmálum; það væri ekki í þágu hagsmuna Bandaríkjanna, að nýjar kynslóðir vaxi úr grasi í Kína og líti á Bandaríkin sem einhvern eðlislægan óvin.
Bandarísk stjórnvöld ættu því að taka lítið mark á málflutningi Kaplan. Kína verður stórveldi í Asíu – hvort sem Bandaríkjunum líkar það betur eða verr. Besta og árangursríkasta stefnan fyrir Bandaríkin væri að viðhalda nánum samskiptum við allar stórþjóðir Asíu – og þar á meðal Kína.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008