Hér á landi sem annars staðar þurfa lögfræðingar á sérstakri löggildingu að halda til að öðlast lögmannsréttindi. Lögmannsréttindi eru réttur manna til að flytja mál fyrir héraðsdómi (héraðsdómslögmenn) og hæstarétti (hæstaréttarlögmenn). Hvernig á að standa að því að veita mönnum lögmannsréttindi og hverjar skyldu vera ástæður þess að sérstakar, oft á tíðum mjög strangar, hömlur eru á aðgangi að þessari starfsstétt?
Fyrir nokkrum árum síðan var reglum um það hvernig menn skyldu öðlast rétt til að starfa sem héraðsdómslögmenn breytt hér á landi. Áður þurftu menn að flytja 3 prófmál fyrir héraðsdómi til að öðlast málflutningsréttindi en nú þurfa lögfræðingar að sækja hálfsárs námskeið og taka próf til að öðlast réttindin. Nánast allir sem sækja námskeiðið hafa útskrifast sem lögfræðingar, eftir 5 ára stíft háskólanám. Námskeiðið gengur svo fyrst og fremst út á það að rifja upp margt af því sem menn lærðu í skólanum Skyldum við hafa betri og hæfari lögmenn fyrir vikið?
Ein helstu rökin sem færð eru fram fyrir því að lögfræðingar þurfi á sérstakri löggildingu að halda til að flytja mál fyrir rétti er til að tryggja að skjólstæðingar lögmanna séu í góðum höndum. Þannig að óbreyttir borgarar geti treyst því að þegar þeir leita sér lögmannsaðstoðar eða þeim er úthlutaður lögmaður sé þar á ferð hæfur einstaklingur sem hafi öðlast þar til gerða löggildingu.
Flestum er hins vegar örugglega ljóst að hvorki 5 ára háskólanám né hálfsárs námskeið gerir menn ekki að góðum lögmönnum. Vissulega þurfa lögmenn að búa yfir ákveðinni þekkingu á lögunum og hinum lögfræðilega þankagangi. Þá lágmarksþekkingu eiga menn hins vegar að hafa eftir 5 ára háskólanám. Sex mánaða námskeið breytir þar engu um.
Það má vissulega færa rök fyrir því að áður en lögfræðingar öðlast lögmannsréttindi skuli gengið úr skugga um þeir hafi nokkurn vegin hreina sakaskrá og óflekkað mannorð. Starf lögmanna er jú að halda uppi rétti og hrinda órétti. Lágmarkskrafa hlýtur að vera að þeir hafi sjálfir siðferði og vit á því að halda sér réttum megin við ramma laganna.
En þörfin á frekari námskeiðshaldi og próftöku vekur hins vegar alltaf upp þá spurningu hvort það sé ekki bara hið fullkomna tækifæri fyrir lögmenn til að takmarka aðgang að eigin stétt og maka þannig eigin krók.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020