Skype

Undanfarin ár hafa fjölmargir aðilar boðið íslenskum neytendum upp á netsíma, án mikils árangurs. Þessar lausnir hafa ekki þótt nægjanlega góðar til að vera almennar, nú er hins vegar komin lausn sem er bæði mjög góð og líklega það besta er að hún er alveg ókeypis. Þetta er Skype.

Skype hefur farið sigurför um heiminn, afar og ömmur eru farin að nota Skype til að tala við barnabörnin hinum megin á hnettinum með góðum árangri. Skype virðist vera sú lausn sem mun færa netsímtöl úr því að vera nördatól yfir í að vera almenningseign. Nú þegar eru 50 milljónir notenda sem nota kerfið (hafa sótt forritið) og þeim fjölgar ört.

Skype er komið frá þeim sem bjuggu til Kaaza, en Kaaza byggist einmitt á að tengja saman tvo notendur og flytja gögn á milli þeirra án viðkomu á miðlægum þjóni. Að sjálfsögðu „áttu“ notendur Kaaza eingöngu að flytja lögleg gögn á milli sín. Hins vegar var mest af efninu sem flutt var á milli manna með forritinu illa fengin tónlist, kvikmyndir og forrit. Ekki var hægt að lögsækja Kaaza vegna þess að efnið snerti aldrei netþjónana þeirra, þeir sköpuðu bara leiðina og hvöttu menn að nota forritið í löglegum tilgangi.

Skype er smíðað með svipaðri tækni og Kaaza, tvær tölvur tengjast með hjálp annarra tölva, sem saman mynda umfangsmikið netkerfi. Hin raunverulegu gögn (pakkarnir) fara beint á milli þeirra sem eru að tala saman og koma aldrei inn á miðlægar tölvur. Skype þarf því engar stórar tölvur eða dýrar fjárfestingar í flóknum tæknibúnaði, því hlutverk Skype er eingöngu að tengja saman tölvurnar. Auk þess að fara beint á milli tölvanna eru „pakkarnir“ dulkóðaðir þannig að “hlerun” er mjög erfið, í raun erfiðari en að hlera venjuleg símtöl sem fara um miðlægt kerfi.

Ásamt því að nýta sér kunnáttu sína til að tengja saman tvær tölvur á þennan hátt, hefur Skype lært af Kaaza hvernig mátti brúa margar hindranir eins og eldveggi og aðrar varnir sem settar hafa upp og notendur kunna sjaldnast að komast fram hjá. Vandamálin sem flestir hafa hingað til rekist á hafa m.a. verið að þetta er dýrt því fyrirtækin hafa þurft að fjárfesta í dýrum tölvubúnaði, uppsetningin er erfið og óreyndir notendur hafa lent í vandræðum með að tengjast, samtölin hafa slitnað í sífellu og gæðin hafa ekki verið góð.

Augljós galli Skype kerfisins er hins vegar að það er bundið við netið, þ.e. sá sem “hringt” er í, þarf að vera nettengdur. Nú er hins vegar farið að bjóða upp á lausnir þannig að menn geti hringt út úr kerfinu (SkypeOut), og þá er eingöngu greitt eins og um innanlandssímtal væri að ræða. Önnur lausn sem hefur verið að ryðja sér til rúms eru Skype símar. Núverandi símar eru tengdir við nettengdar tölvur, en nú eru að koma símar sem geta virkað einir og sér. Þeir notast við þráðlaust net, símarnir leita sjálfir upp opin net og hvort sem við komandi er á gangi í hverfinu og finnur opið þráðlaust net, er í vinnunni, á kaffihúsi eða heima hjá þér virkar Skype síminn og aðrir geta hringt í hann.

Skype er komið til að vera að mati flestra. Þó eru raddir um að þetta sé bara bóla (dómsdegi hefur reyndar verið spáð frá því Skype kom fram 2003) og menn hafa fundið ýmsa ágalla á kerfinu. Það sem mest ríður á fyrir Skype er að fólk fari almennt að taka þetta úr tölvunum og heyrnatólunum og yfir í venjulega síma. Án þess verður Skype bara lausn sem fólk nýtir sér í takmörkuðum mæli til að spara nokkrar krónur einstaka sinnum. Á meðan svo er þurfa símafyrirtækin ekkert að óttast.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.