Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra var viðstaddur þegar ný kjúklingavinnsla var tekin í notkun á dögunum. Þar var á ferð nýjung í matreiðslu og pökkun kjúklingakjöts sem selt er tilbúið í verslanir, þannig að neytandinn getur fyrirhafnalítið útbúið máltíð á skömmum tíma.
Guðni var mjög ánægður með fyrirbærið og sagði það koma sér vel fyrir karlmenn þjóðarinnar nú til dags, þegar konur væru ekki lengur „á bak við eldavélina“ eins og áður. Nú geta sem sagt hjálparvana karlmenn gengið að góðri og fyrirhafnarlítilli máltíð þrátt fyrir fjarveru konunnar í eldhúsinu. Þetta eru skemmtileg ummæli, ekki síst í ljósi þess að þau endurpegla þá skoðun ráðherrans að karlmenn geti ekki eldað flóknar máltíðir. En það sem vakti sérstaka athygli er sú skoðun ráðherrans að þegar kemur að því að karlmaður taki að sér verkefni sem áður tilheyrði konum, að þá þarf sérstaka lausn sem gerir verkið auðveldara og einfaldara en áður, og því sé ný tækni, í þessu tilfelli færibandalína í matvælafyrirtæki, nauðsynleg.
Þetta hefur vakið margar snótir þjóðarinnar til umhugsunar og þeirri spurningu hefur verið velt upp hvernig heimurinn væri umhorfs ef ýmis heimilistæki hefðu verið hönnuð í upphafi með það í huga að karlmenn notuðu þau. Nú er víst öruggara að taka það fram að það er ekki skoðun pistlahöfundar að þessi tæki séu einungis notuð af konum – og í fullkomnum heimi væru þau jafnt notuð af konum og körlum. En staðreyndin er sú að þegar ýmis heimilistæki litu fyrst dagsins ljós á síðustu öld, þá var það mun algengara að konan starfaði heima við og gætti barna, á meðan karlmaðurinn fór út og vann fyrir fjöskyldunni.
Með þetta í huga má ætla að ef þvottavélar hefðu verið hannaðar með þarfir karla í huga, þá kæmi þvotturinn þurr út úr vélinni og samanbrotinn. Þá tæki við færiband sem flytti hann beint inn í skáp á sinn stað. Einnig er óhætt að ætla að sokkar myndu skila sér í skúffuna með sömu tækni, flokkaðir og paraðir. Gott og fyrirhafnarlítið fyrir karlmenn þar sem konur vinna nú úti fjarri eldhúsi og börnum rétt eins og þeir.
Þegar horft er til heilbrigðisþjónustu sem sérstaklega er ætluð konum kemur það sama upp. Á Íslandi er boðið upp á reglulega krabbameinsskoðun sem allar konur hafa rétt á þegar ákveðnum aldri hefur verið náð. Rannsóknin fer þannig fram að röntgenmynd er tekin af brjóstinu. Brjóstinu er þrýst saman til að jafna þykkt þess og tryggja myndskerpu. Þrýst er á brjóstið að ofan og neðan frá þannig að það líkist helst pönnuköku. Þetta hljómar óneitanlega eins og pyntingartæki frá miðöldum og maður spyr sig hvort sama tækni væri notuð ef karlmenn færu í reglulega krabbameinsleit í pungum. Sá grunur læðist að manni að líklega væri búið að finna upp tæki sem gæti numið krabbamein á mun einfaldari og sársaukaminni hátt.
- Svarið við áskorunum framtíðarinnar en ekki lausnin á vanda nútímans - 2. júní 2020
- Lifum við á fordómalausum tímum? - 9. maí 2020
- Má ég, elskan? - 21. júní 2008