Það hefur varla farið fram hjá neinum að vægi mannréttinda hefur farið ört vaxandi hér á landi síðustu ár. Á síðasta áratug voru ný mannréttindaákvæði sett inn í stjórnarskrána og var mannréttindasáttmáli Evrópu jafnframt lögfestur. Þetta er hins vegar ekkert einsdæmi því vægi mannréttinda hefur einnig farið sífellt vaxandi innan Evrópu. Er það mest megnis að þakka Mannréttindasáttmála Evrópu og því eftirliti sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur með framkvæmd hans innan aðildarríkja sáttmálans.
Af þeim sökum er staða mannréttinda í Evrópu þannig í dag að hægt er að byggja gífurlega mikinn rétt á þeim, aðallega gagnvart ríkisvaldinu. Eðli málsins samkvæmt er það hið besta mál og mikil réttarbót fyrir þegna þeirra landa sem eru aðilar að sáttmálanum. En því fylgja einnig viss vandkvæði. Því meira vægi sem mannréttindi hafa í þjóðfélaginu því fleiri mál koma upp þar sem aðilar reyna að misnota mannréttindi til að ná fram markmiðum sínum.
Hafa undanfarin ár komið upp slæm tilvik þar sem greinilega var verið að reyna að misnota mannréttindi. Sem dæmi má nefna mál sem hafa komið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem að meðlimir í rasistasamtökum hafa haldið því fram að verið væri að brjóta tjáningarfrelsi þeirra þegar ríkið bannaði þeim að dreifa áróðri þar sem hvatt var til ofbeldis gegn innflytjendum. Í þeim málum hefur mannréttindadómstóllinn tekið af allan vafa með það að óheimilt sé að nota ákvæði sáttmálans til að skerða önnur réttindi sem eru vernduð samkvæmt honum. Er það í samræmi við 17. gr. sáttmálans sem kveður á um að ekkert ákvæði í mannréttindasáttmálanum skuli túlka þannig að í felist hinn minnsti réttur til handa ríki, samtökum eða einstaklingum til að takast á hendur eða aðhafast nokkuð það sem miðar að því að eyða réttindum þeim einhverjum og frelsi, sem þar er lýst, eða að því að takmarka þau umfram það sem sáttmálinn kveður á um.
Ráðstefnan Tengslanet II – Völd til kvenna var haldin í síðasta mánuði. Þar flutti lögmaðurinn Sif Konráðsdóttir erindi um launajafnrétti kynjanna. Þar hélt hún því fram að launa- og kjaraleynd yrði að takmarkast af jafnréttislögum og ef grunur léki á konum væri mismunað launalega miðað við karla þá ættu þær að geta fengið upplýsingar um það hvað karlkyns vinnufélagar þeirra hefðu í laun. Í kjölfarið ályktaði ráðstefnan eins og hún lagði sig gegn launaleynd og sagði að hún gengi gegn markmiðum jafnréttislaga.
Álitaefnin varðandi afnám launaleyndar eru tvíþætt. Annars vegar gengur það út á hvort vinnuveitandi eigi að geta samið við launþega um að hann muni ekki greina frá launum sínum við vinnufélaga. Felur það sem sagt í sér áleitnar spurningar um hvort réttlætanlegt sé að skerða samningsfrelsið sem ríkir í landinu. Hins vegar gengur það út á hvort starfsmaður eigi rétt á vernd gegn því að vinnuveitandi afhendi þriðja aðila upplýsingar um kaup hans og kjör. Felur það í sér grundvallarspurningar um friðhelgi einkalífs. Virtust ráðstefnugestir vilja skerða bæði samningsfrelsið og friðhelgina til að ná markmiðum sínum fram.
Þessar hugmyndir um að skerða friðhelgi einkalífs verða að teljast verulega varhugaverðar. Upplýsingar um laun og fjármál einstaklinga eru þess eðlis að þær falla klárlega undir friðhelgi einkalífs sem er kirfilega verndað af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Af þeim sökum hafa fjölmargir aðilar sem láta sig mannréttindi varða barist lengi gegn því að álagningarskrár liggi frammi í nokkra daga á ári. Hefur verið talið að kaup og kjör séu einkamál hvers og eins og sjálfsagt að þau fari leynt.
Það veldur því miklum vonbrigðum þegar fjölmargir aðilar hafa staðið lengi í baráttu til að vernda friðhelgi einkalífs og stöðva opinbera birtingu álagningaskrá þá komi upp hugmyndir sem ganga út á að gera þessi viðkvæmu einkamál opinberari en þau eru. Til að toppa ósvífnina þá er jafnræði notað sem röksemd til að ráðast með þessum hætti inn í friðhelgi einkalífsins. Þeir sem haga sér með þessum hætti eru ekki að vinna að framgangi mannréttinda í þjóðfélaginu heldur að nota mannréttindi sem tæki til að ná öðrum markmiðum fram.
Þrátt fyrir að jafnréttisbaráttan sé gífurlega mikilvæg þá er aldrei réttlætanlegt að níðast á öðrum mannréttindum til að ná hugsanlega einhverjum árangri í málaflokknum. Forsvarsmenn jafnréttisbaráttunar mega ekki verða svo einstrengislegir og ofstækisfullir að þeir séu sjálfir farnir að hvetja til sambærilegra brota og þeir eru að reyna að koma í veg fyrir.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020