Sú ákvörðun stjórnvalda að stöðva árlegar fjárveitingar ríkisins til Mannréttindastofu Íslands hefur vakið mikla athygli. Voru röksemdir stjórnvalda fyrir ákvörðuninni þær að framvegis yrðu einstök mannréttindaverkefni styrkt í stað þess að veita öllum fjármununum gagnrýnislaust til Mannréttindastofu. Var stofan gagnrýnd töluvert í kjölfarið og gengu sumir svo langt að verja þessar breytingar með fullyrðingum um að Mannréttindastofa hefði aldrei gert nokkurn skapaðan hlut.
Það er ekki hægt að taka undir þessa gagnrýni á Mannréttindastofu. Á þeim tíma sem stofan hefur starfað þá hefur hún gert marga góða hluti. Eru eflaust bestu dæmi þess að finna í umsögnum hennar um hin ýmsu lagafrumvörp. Bera til dæmis umsagnir stofunar um frumvarp til breytingar á lögum um útlendinga, frumvarp til breytingar á lögum um meðferð opinberra mála og fjölmiðlafrumvarpið glöggt merki þess að þarna er á ferð stofnun með mikla og góða sérfræðiþekkingu á sviði mannréttinda. Stofnun sem ber að taka alvarlega.
En þrátt fyrir að stofnunin sé að gera góða hluti er ekki þar með sagt að hún eigi að fá styrki frá ríkinu. Mannréttindi eru aðallega sett til að vernda einstaklinga gegn ofríki stjórnvalda. Ríkisrekin mannréttindi eru því þversögn í sjálfu sér enda verulega óeðlilegt að aðili greiði fyrir baráttuna gegn sjálfum sér. Ástæðurnar fyrir þessu eru einfaldar. Stjórnmála- og embættismenn eru ekki masókistar. Þeir fá enga sérstaka ánægju út úr því að borga einhverju fólki út í bæ fyrir að ráðast á sig og gagnrýna. Af því leiðir að líkurnar á því að einhver hörundsár stjórnmála- eða embættismaður misnoti stöðu sína til að hafa áhrif á gagnrýnina eru það miklar að slíkt fyrirkomulag er ekki trúverðugt.
Mannréttindasamtök verða einfaldlega að vera algjörlega óháð stjórnvöldum. Það er ekki að ástæðulausu að Amnesty International og öll meiriháttar mannréttindasamtök þiggja ekki fjármuni frá neinni ríkisstjórn. Það er nauðsynlegt svo það sé hægt að taka slík samtök alvarlega. Hins vegar er ljóst af umræðunni í kringum fjárveitinguna til Mannréttindastofu að stjórnarandstaðan og ýmsir aðrir í þjóðfélaginu eru þessu ekki sammála. Þeim finnst ekkert eðlilegra en að ríkið borgi fyrir mannréttindabaráttuna gegn sjálfu sér og sýnir þetta viðhorf þeirra glöggt hversu værukærir margir eru orðnir í þessum málaflokk.
Enn á ný þurfum við að fara að berjast við gamla skandinavíska hugsanaganginn um að ríkið sé eins og gott foreldri sem borgararnir eigi að treysta í blindni. Að auðvitað sé rétt að treysta stjórnvöldum og lögreglu því það sé jú markmið þeirra að vernda og hafa vit fyrir borgurunum. Þetta er forræðishyggja í sinni verstu mynd. Maður veltir því fyrir sér hvort þeir sem gagnrýndu þetta sem hæst og heimtuðu ríkisrekin mannréttindi hafi ekkert verið að fylgjast með því sem hefur verið að koma frá Alþingi undanfarið. Málið er ósköp einfalt. Ef við gætum algjörlega treyst stjórnmála- og embættismönnum og því sem frá þeim kemur þá hefðum við lítið með mannréttindi að gera.
Sem betur fer þá eiga yngri kynslóðir auðveldara með að skilja þetta. Sem dæmi má nefna að þegar Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, komst til valda í Háskóla Íslands árið 2002, eftir mikla eyðimerkurgöngu, var eitt það fyrsta sem hún gerði að hætta að láta Háskóla Íslands borga fyrir hagsmunabaráttuna stúdenta. En samkvæmt gamla fyrirkomulaginu þá var Háskóli Íslands að borga fyrir réttindabaráttuna gegn sjálfum sér. Stúdentar gerðu sér grein fyrir að ef þeir væru á spenanum hjá Háskólayfirvöldum þá hefðu Háskólayfirvöld alltaf tak á þeim þegar á reyndi. Hefur reynslan sýnt að full ástæða var fyrir þessum áhyggjum stúdenta.
Það er því eindregið álit undirritaðs að það besta sem gat komið fyrir Mannréttindastofu var að vera tekin af spenanum. Vissulega er það erfitt fyrst að fara út úr hlýjunni en tíminn mun leiða í ljóst að þetta var það besta sem hugsanlega gat átt sér stað. Núna getur stofnunin sinnt hlutverki sínu án utanaðkomandi áhrifa. Reyndar telur undirritaður það verulega óheppilegt ef Mannréttindastofa heldur áfram að betla fjármuni af ríkinu samkvæmt nýja kerfinu því þá þarf hún enn að reiða sig á velþóknun stjórnvalda. Það til dæmis vakti athygli að hún skilaði ekki umsögn vegna breytinga á fjarskiptalögum þrátt fyrir að hafa gert það í öllum stóru mannréttindamálunum til þessa. Vonandi var það aðeins óheppileg tilviljun en ekki vísbending um að stofnunin sé orðin varfærnari til að eiga auðveldara með að komast í hirslur ríkissjóðs. Mannréttindastofu Íslands væri nær að setja sér reglur sem einfaldlega bönnuðu alla ríkisstyrki.
Þá fyrst værum við farin að tala um alvöru mannréttindasamtök.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020