Á sama tíma og ríkið er að draga sig út úr samkeppnisrekstri í atvinnulífi virðast lítil takmörk fyrir hugmyndaflugi fulltrúa R-listans í Orkuveitu Reykjavíkur um hlutverk fyrirtækisins í nýsköpun í atvinnulífi. Orkuveitan er eitt verðmætasta fyrirtæki landsins – olíulind Reykvíkinga eins og Guðmundur Ólafsson hagfræðingur kallar hana.
Í Fréttablaðinu í dag 1. júní er frétt um nýjasta gæluverkefni stjórnarformannsins Alfreðs Þorsteinssonar sem er sumarbústaða-byggingar í hundraðavís og þjónusta við þá. Og rökin, jú Orkuveitan á land sem er eftirsótt undir sumarbústaði. Gæluverkefnið þar á undan var risarækjueldi, röksemdin, jú Orkuveitan átti heitt vatn. Hvort tveggja er þetta þó smotterí og varla til að tala um í samanburði við fjarskiptaævintýri Orkuveitunnar í Línu neti og skyldum fyrirtækjum, sem kostuðu skattgreiðendur í Reykjavík amk. tvo milljarða. Og hver voru rökin þá, jú Orkuveitan átti línur inní hús borgarbúa.
Í engu þessara tilfella er um það að ræða að verkefnin séu hluti af kjarnastarfsemi, sérþekkingu eða samkeppnishæfni Orkuveitunnar umfram aðra aðila. Ef Orkuveitan telur sig hafa yfir að ráða gögnum eða gæðum sem nýst geta í nýsköpun, þeim sem hafa til þess sérþekkingu, á hún að framselja það með útboði til einkaaðila. Það er óþolandi að þetta milljarðafyrirtæki okkar Reykvíkinga sé leiktæki stjórnmálamanna, sem hvorki hafa reynslu af, né sýnt árangur í atvinnulífi á þeim sviðum sem þeir eru að fara inná í krafti yfirráða yfir eignum borgarbúa. Þeir munu vafalaust halda því fram að með þessu móti fái Orkuveitan hámarksarð af eignum sínum, en reynslan af opinberum rekstri er því miður ekki sú.
Ekki er síður gagnrýnivert, að á sama tíma og R-listinn virðist sammála um þessi fáranlegu gæluverkefni þybbast þeir við að eiga aðild að orkusölu til stóriðju, sem væri eðlilegra verkefni fyrirtækisins og í samræmi við kjarnastarfsemi þess og sérþekkingu.
Þann 25. maí sl. var birt útkoma fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi og var hagnaðurinn tæpir tveir milljarðar, sem að vísu byggðist að hluta á gengishagnaði. Eignir eru metnar á 78 milljarða og ábyrgð þeirra sem með fara er mikil. Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að einkavæða eigi Orkuveituna, en það er ljóst að framferði Alfreðs og félaga kemur illu orði á opinberan rekstur og ýtir undir skoðanir þeirra sem vilja setja orkuöflun og dreifingu alfarið í hendur einkaaðila.
- Orkuveitan fer inn á ný svið í íslensku atvinnulífi - 1. júní 2005
- „Í dag er mikill gleðidagur hjá íslenskum neytendum“ - 28. júlí 2003
- Hvort á að stytta framhaldsskólann eða grunnskólann? - 26. maí 2003