Um helgina gaf franskur almenningur stjórnarskrárdrögum Evrópusambandsins falleinkunn. Ef helstu rök andstæðinga stjórnarskrárinnar í ýmsum löndum eru borin saman verður æ ljósara hve erfitt, jafnvel ómögulegt, verkefni það er að búa til eitthvað heilsteypt, virðulegt skjal sem meirihluti Evrópubúa getur sætt sig við.
Stjórnarskrá ESB og umræðan umhverfis hana er svipuð umræðunni í kringum þær aðalnámsskrár sem Ríkið gefur út. Þegar ég var í MR og nýjasta námsskráin birtist okkur var það altalað meðal nemenda að hún miðaði fyrst og fremst að þörfum áfangaskólana. Íslenska: 3.5 ár. Hvernig ætlarðu að ná því innan bekkjarskólakerfis?
Þegar ég spurði MH-vini mína um sömu námsskrá kom eitthvað þveröfugt á daginn. Þetta var þá víst eitthvað sem skrifað hafði verið af MR-ingum fyrir MR-inga.
Upp’í ráðuneyti.
Líkt og stjórnarskrá ESB er aðalnámsskrá aldei skrifuð af einhverjum manni nástöddum, heldur manns versta óvini. Pólverjar segja að Þjóðverjar hafi skrifað hana. Frakkar segja að hún sé verk Breta og öfugt. Múslimahatararnir í ESB láta sem hún hafi verið samið af Tyrkjum gagngert til að klófesta Jesús og tryggja inngöngu Tyrklands inn í Evrópusambandið.
Annað aðalnámsskrárlegt einkenni nýjustu stjórnarskrár ESB er að allir telja sín áhugamál hafi orðið eftir. „Of lítil íslenska!“ segja íslenskufræðingarnir. „Of lítil stærðfræði!“ segja raunvísindanördarnir.
Þannig vilja íslenskir og breskir hægrimenn ekki sjá umrætt plagg vegna meints sósíalisma meðan að Múrinn heldur því fram að „frjálshyggjukafli“ þess sé nóg til að gefa henni falleinkunn.
Hvar „frjálshyggjukafla“ þessa miðjumoðs sem ESB-stjórnarskráin er er að finna skal ósagt látið. Niðurstaða kosninganna og skoðanir „Nei“-manna hér og þar um Evrópu gefa það skýrt til kynna að Evrópa er ekki til í sameiginlega stjórnarskrá.
Ljóst að drögin sem felld voru um helgina munu aldrei óbreytt verða að stjórnarskrá Evrópusambandsins. Það er því erfitt að skilja þær fyrirætlanir margra ríkisstjórna Evrópu að láta borgara sína áfram fíflast í einhverjum atkvæðagreiðslum til að geta sagt hver við aðra: „Ég er evrópskari en þú!“ Rödd venjulegra Evrópubúa verður að heyrast.
Vonandi munu menn leyfa lýðræðinu að tala. Rödd þess fólks sem vill fara sér hægt í hinum pólitíska Evrópusamruna verður að fara heyrast. Þeir aðilar eru í meirihluta í mörgum aðildarríkjum ESB eins og er. Kannski leiðir það til þess að þegar Evrópa ákveður svo, eftir nokkur ár, að halda á braut sameiningar muni sú skoðun hennar vera einlæg.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021