Búum til borg

Í liðinni viku kynntu sjálfstæðismenn í borginni hugmyndir um framtíðarskipulag Reykjavíkur sem bera augsýnilega vott um framtíðarsýn um betri borg. Deiglan fjallar um tillögurnar í dag og bendir á kosti þeirra og galla.

Í liðinni viku kynntu sjálfstæðismenn í borginni hugmyndir um framtíðarskipulag Reykjavíkur sem bera augsýnilega vott um framtíðarsýn um betri borg. Hugmyndir sjálfstæðismanna felast í byggð í Geldinganesi, Viðey, Engey, Akurey og í Örfirisey, gerð landfyllinga ásamt byggingu brúa og gerð jarðgagna. Engey verður tengd Örfirisey með brú og Lauganesinu með jarðgöngum. Akurey verður tengd Örfirisey með landfyllingu. Lítil byggð verður á Viðey sem verður tengd með brú á austurenda eyjunnar. Örfirisey verður stækkuð um 300 hektara og Engey um 40 hektara.

Byggðirnar sem um ræðir rúma samtals um 30 þúsund íbúa, þar af 9 þúsund í Geldinganesi. Ekki er verið að búa til eitt stórt hverfi þar sem landsvæðin eru aðskilin. Til samanburðar búa í dag um 16 þúsund íbúar í Vesturbænum,

ríflega 18 þúsund í Grafarvoginum og 8 þúsund í Árbænum.

Það er lofsvert framtak hjá sjálfstæðismönnum að koma fram með svona sterka framtíðarsýn um hvernig þeir vilji að byggðin í Reykjavík þróist. Borgarbúar geta þá séð að það eru til aðrir betri möguleikar heldur en að vera sífellt að teygja byggðina í kringum Mosfellsbæ og í átt að Hveragerði. Það er hægt að skipuleggja framtíðaríbúðabyggðir sem nýta ónýtt landsvæði sem sitja hérna rétt fyrir utan hjarta borgarinnar. Byggð á eyjunum fyrir utan og við Vestur- og miðbæinn mun styrkja miðborgina og mynda skemmtilega íbúðarkjarna sem gefa Reykjavík sérstöðu. Geldinganesið er einnig glæsilegt landsvæði fyrir íbúðabyggð og með tilkomu Sundabrautar tengist það Grafarvoginum. Með brú í Viðey verður aðgengi að eynni gott og þar opnast vannýtt útivistarsvæði fyrir borgarbúa.

Deiglan fagnar þessum tillögum Sjálfstæðismanna. Borgarfulltrúar Reykvíkinga verða að fara að gera sér grein fyrir að það er dýrt að skipuleggja ekki og láta byggðina bara smám saman teygja sig lengra og lengra frá miðborginni án þess að horfa á heildarmyndina. Reykjavík sem dreifð úthverfaborg upp um allar heiðar er ekki framtíðarsýn.

Skarð er í annars góðum tillögum sjálfstæðismanna, að ekki er tekin skýr afstaða til framtíðar Vatnsmýrinnar og flugvallarins. Í Vatnsmýrinni er hægt að skipuleggja byggð fyrir allt að 25 þúsund íbúa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tala um hagkvæmnisathuganir og endurteknar kosningar um framtíð Vatnsmýrinnar og kvarta undan því að stefnumörkum R-listans sé óljós. Fylkingarnar benda hver á aðra og enginn þorir að taka af skarið og koma fram með heildstæða tillögu. Það er samt sem áður gleðiefni að sjálfsstæðismenn telji að flugvöllurinn fari og þetta sé aðeins spurning um tíma.

Vonandi verður það raunin að flugvöllurinn fari og að borgarbúar fái að sjá jafnglæsilegar tillögur frá sjálfstæðismönnum fyrir Vatnsmýrina. Hætt er hins vegar við því að svæðið endi sem málamyndagjörningur með ótengdum og ósamstæðum reitum fyrir mismunandi starfsemi svo sem háskóla, flugbraut, íbúðabyggð og íþróttasvæði. Hverjum reit fyrir sig verður komið í gegnum borgarkerfið án þess að horfa á Vatnsmýrina í heild. Hvert frímerki verður þá skipulagt fyrir sig og tengingar og samfella enginn. Það verður ekki glæsibragur yfir því.

R-listinn hefur sýnt það þau ár sem hann hefur verið við völd í borginni að hann ræður ekki við verkefnið. Óstjórn, gífurleg skuldasöfnun og skipulagsleysi er sá raunveruleiki sem borgarbúar hafa kynnst í valdatíð R-listans. Þetta ásamt skorti á framtíðarsýn gerir það að verkum að nauðsynlegt er að skipta um meirihluta. Þær hugmyndir sem hafa verið kynntar af sjálfstæðismönnum sýna að borgarbúar hafa annan kost í stöðunni og það er mikilvægt að borgarbúar tryggi að hugmyndir sem stuðla að betri borg fái fram að ganga.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)