Thom Yorke er tileygður með eindæmum.
|
Nýlega rökræddu Thom Yorke söngvari Radiohead og Howard Zinn, höfundur bókarinnar People’s History of the United States, um hlutverk listamanna við að betrumbæta heiminn. Báðir eru þeir félagar að góðu kunnir fyrir verk sín – hvor á sínu sviði – og eru þekktir fyrir margt annað en að liggja á skoðunum sínum. Þannig vakti t.a.m. nafngiftin á nýjustu breiðskífu Radiohead – Hail to the Thief – mikið umtal, enda hörð ádeila falin í nafngiftinni. Bækur Zinn hafa að sama skapi hrist upp í mörgum og er honum oftar en ekki lyft á stall með Noam Chomsky. Í umræðunum benti Zinn á að afstöðu listmanna til stíðsrekstrar megi rekja allt aftur til Forngrikkja sem létu persónur leikrita sinna tala gegn stríði. Að hans mati hefur hlutverk listamanna í samfélaginu tekið litlum breytingum í tímans rás – enda hafi grunngerð samfélagsins ekki tekið stakkaskiptum: enn geysi stríð og stéttaskipting sé enn þá við lýði. Á meðan svo er muni grunninntak listarinnar haldast óbreytt og listamenn verði áfram fastir í sama hlutverki og áður fyrr.
Yorke bendir á að nafngiftin á síðustu breiðskífu hljómsveitarinnar hafi vakið blendin viðbrögð manna á meðal. Í viðtalinu áréttar hann samt að þótt svo listamenn geri eitthvað sem hljóti góðar undirtektir – þá er ekki þar með sagt að framlag þeirra sé ögrandi – enda lúti t.d. öll tónlist sömu grunnlögmálum og aðrar listgreinar.
Í huga Zinn þá mótast róttækir listamenn af viðbrögðum almennings og óttast að hann muni spyrja þá hvers vegna þeir beri pólitískan áróður á torg og hvort hlutverk þeirra sé ekki frekar að skemmta aðdáendum sínum í stað þess að vekja þá til umhugsunar.
Þannig telur hann mikið unnið ef menn árétta reglulega fyrir listamönnum að sögulegt hlutverk listarinnar sé andóf og listamenn hafi oftar en ekki knúið fram breytingar á samfélaginu. Þannig verða listmálarar að hans viti að þekkja stjórnmálaskoðanir Picassos. Að sama skapi er í hans huga nauðsynlegt að leikskáld þekki sögu Forngrikkja, Ibsens, Strinbergs og séu meðvitaðir um samfélagsvitund annarra mikilla leikskálda.
Já, já – áfram Liverpool, segir pistlahöfundur bara!
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007