Við skoðun á dagatali má glögglega sjá að nú er kominn 24. maí á því herrans ári 2005. Það þýðir, sé stærðfræðin ekki að svíkja undirritaðan þeim mun meira, að vika er í að júní-mánuður hefjist.
Maí-mánuður, sá sem nú rennur sitt skeið brátt á enda, hefur verið nokkuð einkennilegur hvað tíðarfar snertir. Þannig hafa frostnætur verið alltíðar og lætur nærri að í innsveitum hafi frost mælst aðra hverja nótt. Einkennisveðurlag mánaðarins hefur verið hár loftþrýstingur með björtu veðri og lítilli úrkomu, þar sem norðanátt er gjarnan ríkjandi.
Kornbændur hafa af þessum sökum nokkrar áhyggjur af sprettunni enda ljóst að henni seinkar nokkuð vegna kuldans. Spurning er hvort kornið hafi fyllt hitamælinn. Gróðurframvindan hefur að öðru leyti einnig verið heldur hæg þetta vorið.
Ástandið er nokkuð óvenjulegt því að það voraði snemma og aprílmánuður lofaði góðu. Þannig horfðu menn bjartsýnir fram á veg. Vorið hefur hins vegar látið á sér standa af einhverjum ástæðum og er því ekki furða að spurt sé: „Hvert fór vorið?“
Óskandi er að nú komi bráðum betri tíð með blóm í haga. Í þeim efnum getur þó brugðið til beggja vona og ekkert er fast í hendi. Þannig gæti sumarið allt eins orðið skrykkjótt.
Hvað sem öðru líður ættu þó allir að geta fundið sér eitthvað til dundurs í sumar.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006