Tollskráin er hið furðulegasta skjal. Maður fær það strax sterkt á tilfinninguna að maður sé kominn mjög langt, langt aftur í fortíðina þegar maður byrjar að skoða það. Tökum til dæmis kaflan um “óunnar húðir og skinn (þó ekki loðskinn) og leður”. Þar segir undir liðnum:
“Óunnar húðir og skinn af dýrum nautgripa- (þar með taldir vísundar) eða hrossaættar (nýtt, eða saltað, þurrkað, kalkað, pæklað eða varið skemmdum á annan hátt til geymslu, en ekki sútað, verkað sem bókfell eða frekar unnið), einnig afhárað eða klofið:”
að tollar á “aðrar hrossahúðir” 16 kg eða þyngri séu 5% en “nautshúðir í botnvörpur nýjar eða blautsaltaðar, eða óunnar en saltaðar og blásteinslitaðar” beri enga tolla. Þetta á sér líklega góðar og gildar skýringar sem ég kann því miður ekki skil á.
Kaflinn um korn er einnig athyglisverður. Það kemur fram að tollar á hveiti, meslín, rúgur, bygg, hafra og maís er 55% ef þessar vörur eru ætlaðar til fóðurs eða fóðurgerðar. En annars bera þær enga tolla.
Ekki síður athyglisverður er kaflinn “Ýmis matvælaframleiðsla”. Þar kemst maður að því að tómatsósa, sojasósa og sinnep bera enga tolla á meðan tollur á majones og remulaði er 19 kr/kg og “sælgæti sem hvorki inniheldur sykur né kakaó” ber 13% toll.
Tollar á innfluttu vatni eru 20% nema það sé ætlað til notkunar í björgunarbátum. Tollar á gosdrykki eru einnig 20%. Tollar á konfekt eru 20% plús 51 kr/kg. Tollar á súkkulaðihúðaðar rúsínur eru 20% plús 56 kr/kg. Tollar á mjólkurafurðum eru 20% plús 42 kr/kg. Tollur á öl úr malti er 20% en tollur á viskí, vodka og gin er 0%.
Kartöfluflögur bera sérstaklega háan toll. Liðurinn “Nasl svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir o.þ.h., þó ekki úr kartöflumjöli” ber til dæmis 59% toll. Engin furða að það sé ekki mikið úrval af erlendum kartöfluflögum á Íslandi.
Það þarf líklega ekki að taka það fram að mér finnst allir þessir tollar út í hött. Tilgangur flestra þeirra er að vernda innlenda framleiðslu sem stenst ekki samkeppni við erlenda aðila á jafnréttisgrunvelli. Eins og svo oft eru þröngir hagsmunir framleiðenda teknir fram yfir mun stærri (en dreifðari) hagsmuni neytenda.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009