Í ár áttum við raunverulega möguleika. Lagið var gott, flytjandinn vanur og flestir spáðu okkur góðu gengi. Þetta voru ekki þessar venjulega spár heldur var íslenska laginu spáð einu af fimm efstu sætunum hjá flestum veðbönkum. Það er því í raun og veru óskiljanlegt að Selma Björnsdóttir og stallstúlkur hennar hafi ekki komist áfram í úrslitakeppnina. Ég meina come on, Makedónía!!!
Sum laganna í úrslitum eru ekki bara vond, heldur vandlega úthugsuð leið til að kvelja 200 milljónir í 3 mínútur. Til þess að fela það má til dæmis nota sílikon og flegna kjóla (lesist Ísrael) eða táknmál (lesist Lettland). Og kannski var það bara gott að íslensku stúlkurnar ákváðu að fara gjörólíka leið, að minnsta kosti er ljóst að lagið féll ekki í skuggann af glæsilegum búningum í ár.
Auðvitað eru Íslendingar ekkert saklausir af klíkuskap í keppninni. Norðurlandaþjóðirnar geta yfirleitt bókað stig frá okkur og við frá þeim, en samheldni Austur-Evrópuþjóðanna í ár náði út fyrir allan þjófabálk. Ég veit að þetta voru kúgaðar þjóðir og allt það en Evrópa þarf ekki að velta sér upp úr því í áraraðir með því að verðlauna bumbuslátt og hallærisleg myndbönd. Það getur ekki verið að Króatíska lagið “Úlfar deyja einir” (Wolfs die alone) þyki betra en íslenska framlagið.
En kannski erum við bara svona vitlaus. Á hverju ári verðum við furðu lostin þegar Íslendingar vinna ekki stórmót í handbolta, okkur finnst stórfurðulegt að útlendingar viti ekki allt um landið okkar og í 19 ár hefur Evrópa misskilið framlag okkar í Evróvisjón. Við fyllumst engu að síður bjartsýni á hverju ári og höldum með okkar fólki fram í rauðan dauðan. Þannig verður það á næsta ári hvar sem keppnin fer þá fram.
Aðalkvöldið er auðvitað í kvöld. 24 þjóðir berjast um efsta sætið en allir mega kjósa, líka Íslendingar. Mörgum þykja Norðmenn sigurstranglegir í glisbúningum með Bon Jovi-skotið lag. Fjörlegt og frísklegt, menn sem taka sig ekki of hátíðlega. Ungverjaland og Sviss þykja einnig líkleg til afreka.
Eftir fimmtudagskvöldið gæti þó allt snúist á haus. Moldóvar syngja um ömmu sem ber trommur og hafa vakið mikla athygli. Táknmáls-tvíburarnir frá Lettlandi vekja hrifningu eldri kynslóðarinnar og það virðist alveg sama hvaða viðbjóður kemur frá löndunum á Balkanskaganum, alltaf skulu þau á meðal efstu þjóða.
Það er því um að gera fyrir fólk að sameinast fyrir framan sjónvarpstækin í kvöld. Þótt mesti glansinn sé ef til vill farinn af keppninni í ár við brottfall Selmu er hægt að skemmta sér konunglega yfir undarlegri sviðsframkomu, skelfilegum búningum og jafnvel enn skelfilegri flytjendum. Evróvisjón hefur þrátt fyrir allt einhvern undarlegan sjarma sem heldur okkur Íslendingum föngnum á hverju ári. Þrátt fyrir að Evrópa hafi svikið okkur í ár.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005