Mannúðleg dauðarefsing?

Þegar kemur að aftökum skv. dauðarefsingum hefur aflífun með banvænni sprautu í seinni tíð verið talin mannúðlegasta aðferðin. Nýleg rannsókn bendir til að í hátt í 43% rannsakaðra tilvika gæti fanginn mjög líklega hafa verið með meðvitund þegar að aftakan fór fram.

Algengasta aðferðin í Bandaríkjunum til að lífláta fólk skv. lögum er með banvænni sprautu. Þessari aðferð hefur verið beitt til að taka af lífi 788 af þeim 956 einstaklingum sem teknir hafa verið af lífi í Bandaríkjunum síðan 1976. Að taka fólk af lífi með banvænni sprautu er talin vera í samræmi við stjórnarskrána þar sem er að finna fyrirmæli sem eru á móti grimmilegri eða ómannlegri refsingu.

Reyndar getur banvæn sprauta ekki virðst annað en mannúðleg þegar aðrar aðferðir t.d. rafmagnsstóllinn, gasklefar, aftökusveit eða henging eru teknar til hliðsjónar.

Aflífun með banvænni sprautu fer þannig fram að fanginn er vanalega bundinn niður í stól og tengdar í æðar hans 2 nálar-ef ske kynni að önnur myndi bregðast. Þegar fangelsisvörður gefur merki tekur inngjafarteymið til starfa. Fyrst er gefið inn natríum thiopental til að svæfa fangann. Því fylgir síðan pancuronium brómíð sem veldur lömun og að lokum er dælt inn kalíum klóríði til að framkalla hjartastopp. Þetta hljómar í öllum sínum hryllileika heldur hreinlegt.

Í rannsókn sem birt var nýlega kemur hinsvegar fram í niðurstöðum að e.t.v. sé þessi aflífunaraðferð ekki eins mannúðleg og fylgjendur dauðarefsingar vilja halda fram. Rannsakendur fengu upplýsingar sínar frá Virgíníu og Texas, en þar hefur um helmingur allra aftaka í Bandaríkjunum farið fram. Í ljós kom að hvorugt fylkið hélt nokkra skrá yfir það hvernig þeir þróuðu vinnuferla í kringum aftökurnar, og að inngjafarteymið væri vanalega samsett af hjúkrunarfólki sem hefði enga sérhæfða þjálfun í svæfingartækni. Jafnframt kom í ljós að ekki væri nokkurt vísindalegt mat lagt á dýpt svæfingarinnar áður en lömunarefnið eða kalíum klóríðið væri gefið inn.

Frá öðrum fylkjum fengu rannsakendur einnig niðurstöður úr eiturefnamælingum sem gerðar voru á föngum eftir aftöku. Í ljós kom að thiopentalstyrkur í blóði 43 látinna af 49 (88%) var lægri en sá styrkur sem þarf til svæfingar fyrir skurðaðgerð. Ennfremur að 21 (43%) höfðu thiopentalstyrk í blóði sem samsvaraði því að þessir einstaklingar gætu hafa verið með meðvitund og vakandi. Vegna lamandi inngjafarinnar sem fylgir strax á eftir hefði fanginn þó með engu móti getað gert vart um meðvitund sína, og því hefur heldur aldrei verið hægt að sjá það á fanganum á meðan á aftökunni stóð ef svo hefði verið.

Út frá þessum niðurstöðum virðist þessi aðferð því hvorki hreinleg né mannúðleg. Að vera vakandi, lamaður og geta ekki hreyft sig eða andað meðan að eitrið brennur í gegnum æðarnar. Tekið skal fram að samtök dýralækna og 19 fylki, þ.á.m. Texas hafa bannað notkun efna í sama flokki og thiopental (neuromuscular blocking agents) til að drepa dýr vegna hættunnar á því að þessar aðstæður gætu komið upp þ.e. að dýrin séu við meðvitund þegar þau eru aflífuð.

Rannsakendurnir kalla í þessu ljósi eftir því að aflífun með banvænni sprautu verði hætt og aðferðin og verklagið allt endurskoðað frá grunni. Telja þeir hinsvegar að harla erfitt gæti reynst að þróa fullkomlega mannúðlega aflífunaraðferð án aðkomu lækna, sem hafa hingað til ekki mátt koma nálægt aftökum af siðferðilegum ástæðum.

Heimildir:

The Lancet

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.