Lengsta opinbera kosningabarátta um embætti innan íslensks stjórnmálaflokks er senn á enda. Um næstu helgi ræðst það hvort Össur Skarphéðinsson tryggir sér áframhaldandi setu sem formaður eða hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir veltir honum úr sessi. Niðurstaða kjörsins mun hafa mikil áhrif á það hvaða stefnu Samfylkingin tekur í íslenskum stjórnmálum.
Þótt ýmsar skoðanakannanir bendi til þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir njóti meiri hylli en Össur Skarphéðinsson, þá er of snemmt að afskrifa Össur sem sækir fylgi sitt fremur en Ingibjörg Sólrún til virkra flokksmanna. Á það hefur verið bent að það sé nokkur fyrirhöfn fyrir flokksmenn að taka þátt í kjörinu. Margir telja líka að þótt Ingibjörg Sólrún njóti almennari hylli en Össur, þá séu stuðningsmenn Össurar einarðari í sinni afstöðu og líklegri til að taka þátt í kjörinu. Lítil þátttaka í kjörinu myndi því auka möguleika Össurar. En á hvorn veginn sem fer, mun formannskjörið í Samfylkunni um næstu helgi að öllum líkinda hafa talsverð áhrif á þróun íslenskra stjórnmála.
Fari Össur Skarphéðinsson með sigur af hólmi er ljóst að Samfylkingin hefur tekið ákveðna stefnu inn að miðju íslenskra stjórnmála. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu fylgi í síðustu kosningum og þeir eru til sem telja að flokkurinn muni eiga erfitt með að verja þá sterku stöðu sem hann hefur haft á miðju íslenskra stjórnmála ef Samfylkingin fer þá leið sem breski Verkamannaflokkurinn hefur farið undir forystu Tony Blair. Sigur Össurar myndi jafnframt veikja stöðu verkalýðshreyfingarinnar innan Samfylkingarinnar og gera flokkinn minna aðlaðandi fyrir vinstrimenn.
Sigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjöri myndi breyta valdahlutföllum innan Samfylkingarinnar. Hún sækir stuðning sinn til þeirra sem teljast til s.k. „vinstri-intelligensíu” og til verkalýðshreyfingarinnar, eða í öllu falli forystumanna hennar. Össur hins vegar virðist njóta meira fylgis meðal markaðshyggjumanna innan Samfylkingarinnar. Fari Ingibjörg Sólrún með sigur af hólmi um næstu helgi mun það væntanlega þýða að Samfylkingin verður hreinræktaðri vinstriflokkur en hingað til.
Því hefur verið haldið fram – nær eingöngu reyndar af fylgismönnum Ingibjargar Sólrúnar – að sjálfstæðismenn hafi lagst á árarnar með Össuri í formannslagnum. Þótt hér sé um klókan áróður að ræða, þá er þessi kenning um að sjálfstæðismenn telji það sé í hag að Össur vinni Ingibjörgu afskaplega hæpin þegar betur er að gáð. Ef einhver stjórnmálaflokkur ætti að sjá sér hag í sigri Össurar, þá eru það vinstrigrænir. Valdataka Ingibjargar og verkalýðshreyfingarinnar í Samfylkingarinnar yrði reiðarslag fyrir VG, þar sem Samfylkingin yrði væntanleg mun vænlegri kostur fyrir íslenska vinstrimenn en hún hefur verið til þessa.
Gagnvart Sjálfstæðisflokknum myndu valdaskipti í Samfylkingunni væntanlega opna á ný sóknarfæri inn á miðjuna í íslenskri pólitík. Sú hætta sem steðjaði að Sjálfstæðisflokknum með sókn Samfylkingarinnar inn að miðju íslenskra stjórnmála var að hann tapaði miðjufylginu og yrði að hefðbundnum norrænum hægriflokki. Uppgangur vinstrimanna innan Samfylkingarinnar með kjöri Ingibjargar Sólrúnar yrði því síður en svo áhyggjuefni fyrir sjálfstæðismenn. Þeir þyrftu í það minnsta varla að óttast að sömu örlög biðu Sjálfstæðisflokksins og breska Íhaldsflokksins sem var hrakinn út í horn af markaðshyggjumönnum í Verkamannaflokknum.
Hin sögulega sterka staða Sjálfstæðisflokksins í íslensku stjórnmálum er fyrst og fremst tilkomin vegna þess að hann hefur haft breiða skírskotun og sterka stöðu á miðjunni. Sumir hafa gengið svo langt að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé í raun markaðshyggjusinnaður sósíaldemókrataflokkur. Í síðustu kosningum máttu sjálfstæðismenn sætta sig við verulegt fylgistap. Eftir góðan kosningasigur 1999 misstu þeir um fimmtung af kjörfylgi sínu og þar með stól forsætisráðherra til Framóknarflokksins. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn verður að gera betur í næstu kosningum, ef hann á að halda áfram óumdeildu forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum.
Nái vinstrimenn undirtökunum í Samfylkingunni undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, munu línurnar skýrast í íslenskri pólitík. Samfylkingin myndi eflaust sækja aukið fylgi til Vinstrigrænna og auka styrk sinn. En þetta umhverfi yrði jafnframt vel til þess fallið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hefja nýja sókn inn á miðjuna og endurheimta fyrri þingstyrk sinn. Til lengri tíma litið gæti vinstrisveifla Samfylkingarinnar undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur orðið upphafið að tveggja flokka kerfi í íslenskum stjórnmálum. Sigri Össur hins vegar mun baráttan um miðjuna harðna enn frekar.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008