Hagfræði er venjulega tengd við markaðinn, verslun og viðskipti. En það er ekki eina notagildið. Aðferðafræði hagfræðinnar má nefnilega nota á nánast öll svið mannlífsins, svo sem hjónabönd, glæpi, umferðaslys og kynlíf! Hagfræðileg greining sýnir okkur hvernig tiltekin hegðun minnkar því dýrari sem hún verður og sömuleiðis hvernig hegðunin eykst eftir því sem hún verður ódýrari. Í pistli dagsins verður litið á kostnaðinn og ábatann af kynlífi.
Það er sennilega flestum ljóst að ábatinn af kynlífi er sú ánægja sem aðilarnir fá út úr hegðuninni. Ánægjuna má rekja til líffræði- og sálfræðilegra þátta. Kostnaðarhlið kynlífs er fyrst og fremst kynsjúkdómar og óæskileg þungun.
Með tækniframförum hefur kostnaðurinn við kynlíf minnkað verulega á undanförnum áratugum. Núna er tiltölulega einfalt að koma í veg fyrir kynsjúkdóma og óæskilega þungun. Og jafnvel þó fólk fái kynsjúkdóm eru margir þeirra auðlæknanlegir og fóstureyðing er lausn á óæskilegri þungun. Þetta er sennilega mikilvægur þáttur í þeirri staðreynd að kynlíf fyrir hjónaband hefur aukist stórlega í hinum vestræna heimi á undanförnum áratugum. Tölur frá Bandaríkjunum sýna að í kringum 1950 höfðu um 25% 19 ára gamalla kvenna stundað kynlíf fyrir utan hjónaband en þessi tala hefur nú hækkað upp í 80%. Fjöldi kynlífsfélaga hefur einnig aukist verulega.
Það er einnig forvitnilegt að skoða hvaða áhrif breytt staða kvenna í þjóðfélaginu hefur á eftirspurn og framboð á kynlífi fyrir utan hjónaband. Eftir því sem atvinnutækifæri kvenna hafa aukist hefur ábati þeirra af hjónabandi minnkað þar sem konur eru ekki háðar maka um framfærslu. Aukin atvinnuþáttaka hefur einnig hækkað fórnarkostnaðinn við barneignir, þar sem það er dýrt að hætta að vinna til að eignast börn. Þetta hefur leitt til þess að giftingum hefur fækkað og meðalaldur þeirra sem giftast hækkað. Minni tíma af ævinni er því varið í hjónabandi en áður, sem eykur eftirspurn eftir kynlífi fyrir utan hjónaband.
Annar þáttur í þessari þróun er minnkandi barnadauði og vaxandi velmegun og félagslegt öryggi. Áður voru konur stanslaust óléttar til að eiga möguleikann á því koma nokkrum börnum í fullorðinstölu enda foreldrar háðir börnum sínum um framfærslu í ellinni. Þessar breytingar hafa leitt til þess að eftirspurn eftir börnum hefur minnkað verulega.
Áhrif þessarar þróunar á viðhorf samfélagsins til samkynhneigðar er einnig áhugvert. Í samfélögum þar sem kynlíf utan hjónabands er talið eðlilegt eru viðhorf til samkynhneigðar einnig jákvæðari. Tengslin milli hjónabands (og barneigna) og kynlífs hafa nánast rofnað. Eftir því sem kynlíf er stundað meira einungis ánægjunnar vegna en ekki til að fjölga heiminum má gera ráð fyrir að kynlíf samkynhneigðra (einungis stundað ánægjunnar vegna) verði talið eðlilegra og sjálfsagðara en áður.
Þótt í þessu felist gamall og augljós sannleikur er áhugavert að skoða þróunina út frá kostnaði og ábata.
Heimild: http://www.becker-posner-blog.com/ þar sem einnig er að finna ítarlegri umfjöllun um efnið.
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020