Kópavogsbúinn

Um þessar mundir heldur Kópavogsbær upp á 50 ára afmæli sitt og af því tilefni er þessi pistill helgaður bænum græna. Að mörgu leiti líkist bærinn frekar litlu þorpi á landsbyggðinni en stærsta bæjarfélagi höfuðborgarsvæðisins sem enn er í örum vexti.

Nú þegar Kópavogsbær heldur upp á 50 ára afmæli sitt er rétt að staldra við og veita þessu einstaka kaupstað pláss og athygli hér á vefritinu. Þegar betur er að gáð þá líkist bærinn frekar litlu þorpi á landsbyggðinni en stærsta bæjarfélagi höfuðborgarsvæðisins sem hefur laðað til sín fleiri íbúa en nágrannarnir.

Greinarhöfundur er svo lánsamur að búa í Kópavogi og hefur gert það í tæp tvö ár eftir að hafa slitið barnsskónum að mestu í Breiðholtinu. Það er einu sinni svo að þegar maður flytur á nýjan stað að þá tekur maður eftir því sem er frábrugðið fyrri reynslu.

Í eldri hluta Kópavogs, sem tilheyrir Kársnesinu, ríkir sérstakur bragur. Frá fyrsta degi tekur nýbakaður Kópavogsbúi eftir því að hann er fluttur í nýtt bæjarfélag. Því þrátt fyrir að mjög stutt sé heim til Reykjavíkur frá þeim stað sem flutt var til og skýrt augnsamband við stolt okkar Reykvíkinga, Perluna, þá fer það ekki á milli mála að búið er að fara yfir ákveðin mörk. Bæjarmörk. Það fyrsta sem býður nýjan meðlim bæjarins velkominn er Kópavogspósturinn. Á eftir honum fylgir málgagn kvenfélaga, íþróttafélaga og allra stjórnmálaflokkanna. Svona til öryggis. Slíkt fá íbúar höfuðborgarinnar ekki sent óumbeðið heim til sín.

Hinn dæmigerði Kópavogsbúi á þessum slóðum bæjarins er frumkvöðull. Hann er kominn yfir léttasta æviskeiðið og tilheyrir þeim hópi sem ákvað að setjast að í nýju og ómótuðu bæjarfélagi. Oftar en ekki er hann iðnaðarmaður, ekur um á „station“ bíl með vinnudót í skottinu, grannur og hvikur í hreifingum. Hann er vingjarnlegur og heldur hurðinni opinni fyrir ungum snótum í fiskbúðinni seinni part dags og bíður góðan daginn með bros á vör. Hverfisfiskbúðir eru hér nokkrar, enda gerir fólkið hér sér ekki ferð í heilsubúðir til að kaupa lífræn matvæli og fínheit, heldur ræktar sínar eigin kartöflur í garðinum með fiskinum. Enda er slíkt í blóð borið hjá frumkvöðlum að sækja ekki vatnið yfir lækinn.

Hann býr í einbýlishúsi á stórri lóð sem í dag myndi rúma fjögur hús. Húsin í hverfinu eru mörg hver þannig að þau hafa verið stækkuð smám saman í áranna rás eftir því sem börnum fjölgaði. Innkeyrslan að húsinu er löng og nær langt inn í lóðina þar sem húsið leynist. Innkeyrslan er í flestum tilfellum malarvegur og húsin oftar en ekki ókláruð. Sá smávægilegi hluti sem ekki var gengið frá við byggingu hefur veðrast í áranna rás. Þá eru risastóru lóðirnar vel grænar með stórum öspum og veglegri flöt sem hvert einasta barn í Breiðholtinu myndi með glöðu geði vilja spyrna í með bolta. Það er ekki laust við að þetta gefi rómantískan blæ á hverfið.

Að lokum er vert að minnast á þvottasnúrurnar. Reyndar er fátt jafn hversdagslegt og þvottasnúrur en þegar betur er að gáð, þá eru þær notaðar vel úr hófi fram hér í bænum. Við hvert hús blaktir ilmandi þvottur á snúrum. Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að öll árin í Breiðholtinu sá greinarhöfundur aldrei þvott á snúrum. Þar voru þurrkarar notaðir og innisnúrur í risastórum þvottahúsum í kjöllurum blokka. Eins þau þrjú ár sem undirrituð bjó í hinum undursamlega vesturbæ Reykjavíkur, þá var enginn með þvott á snúru þar heldur.

Kópavogsmærin fer margar ferðir út í garð að hengja upp og taka niður þvott. Hrein unun er að horfa út um gluggann þegar rigningarskúr skellur á og sjá á viðbragðsflýti kvennanna (já ég sagði kvennanna, karlmennirnir í Kópavogi hengja ekki upp þvott), við að taka niður þvottinn í hasti til að bjarga honum undan votviðrinu. Það er ólíklegt að þær eigi þurrkara til að nota í slíkum neyðartilvikum, heldur horfa þær til veðurs og þvotturinn er hengdur upp á ný þegar styttir upp.

Það er óhætt að segja að mannlífið hér gengur sinn vanagang í sátt við Guð og menn. Taka verður fram að Kópavogsbúar eru stoltir af bænum sínum. Þeir sem komnir eru til ára sinna hafa séð bæinn byggjast hratt upp á fáum áratugum og hafa þeir fulla ástæðu til þess. Því svo virðist sem að hjarta bæjarins hafi allt sem prýða þarf myndarlegan bæ og óþarfi að telja upp hér söfn og tónlistarsali. Og ekki má gleyma Byko og Smáralindinni.

Þau ykkar sem eruð orðin forvitin að koma yfir bæjarmörkin og líta á dýrðina, er rétt að minna á að framundan eru mörg tækifæri til þess, enda fjöldi viðburða á komandi mánuðum í tengslum við afmælishátíðina. Sjá nánar á hér.