Nú rétt fyrir þinglok var á Alþingi samþykkt frumvarp um vegaáætlun 2005-2008 sem svo sannarlega gerir tilkall til nánari athugunar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að um 31 milljarðar renni til vegaframkvæmda á næstu þremur árum. Það stingur þó í stúf að einungis um 22% af því fjármagni er ætlað til höfuðborgarsvæðisins þar sem að 2/3 íbúar landsins búa. Landsbyggðin með 1/3 hluta íbúafjöldans fær svo afganginn, litla 24.2 milljarða. Athygli vekur að Norðvesturkjördæmi, heimabyggð samgönguráðherra og kjördæmi með um 30 þús. manns, fær jafn mikið fjármagn og höfuðborgarsvæðið í heild sinni.
Þetta væri svo sem gott og blessað ef hallað hefði á vegaframkvæmdir á landsbyggðinni til þessa, en raunin er allt önnur. Síðastliðin tíu ár hefur um 80% prósent af ráðstöfunarfé til nýframkvæmda í vegamálum gengið til landsbyggðarinnar á meðan höfuðborgarsvæðið hefur einungis fengið um 20%. Ljóst er að brýn þörf er á bættum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu á borð við mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar – Miklubrautar og framkvæmdir við Sundabraut.
Þörfin fyrir aukið fjármagn til höfuðborgarinnar er ekki síst brýn sökum umferðaröryggis en í samgönguáætlun kemur eftirfarandi fram um verkefni á höfuðborgarsvæðinu: “Á þessu svæði er þjóðvegaumferð langmest og slys tíðust. Þörf fyrir úrbætur hefur vaxið ört á undanförnum árum og ýmsar kostnaðarsamar aðgerðir eru aðkallandi. Á þessu svæði er einnig unnt að fækka umferðaslysum mest” Samt sem áður eru þessi rök höfð að engu og fjármunum ausið til jarðgangagerðar og annarrar vitleysu. Jafnframt er slegið á frest framkvæmdum við ein hættulegustu gatnamót í Reykjavík, þ.e. mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það liggur fyrir að yfir 80 þúsund bílar fara þar um á dag. Árið 2002 urðu þar 92 umferðarslys og 44 slösuðust. Er virkilega mikilvægara að stytta ferðatíma Siglfirðinga með jarðgangagerð upp á 6-8 milljarða í stað þess að fækka umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu ?
Þegar komið er að skipulagi og framtíðarskipulagi Vatnsmýrinnar kárnar gamanið heldur betur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ný samgöngumiðstöð rísi í Vatnsmýrinni og að ný flugstöð verði byggð fyrir innanlandsflugið. Nokkur umræða hefur skapast um framtíð Reykjavíkurflugvallar og hugsanlegt brotthvarf hans úr Vatnsmýrinni. Líklegt þykir að þegar nýbúið verður að splæsa í flotta samgöngumiðstöð [líklega nefnd í höfuði á Sturlu] og ný flugstöð risin þá verði enn erfiðara að að flytja flugvöllinn. Með þessu frumvarpi er því verið að festa flugvöllinn í sessi á núverandi stað.
Vissulega á flugvöllurinn ekkert erindi í Vatnsmýrina. Það er ólíðandi með öllu að landsbyggðin haldi þessu verðmæta byggingarsvæði Reykvíkinga í gíslingu. Vissulega þurfa íbúar landsbyggðarinnar að geta komist skjótt og örugglega til Reykjavíkur en hver segir að hagsmunum þeirra sé verr farið með flugvöll sem staðsettur er við borgarmörkin. Margir staðir hafa verið nefndir og blæs ég á þau rök að ekki sé hægt að finna neinn ákjósanlegan stað í nágrenni Reykjavíkur sem henti undir flugvöll.
Að sama skapi hafa landsbyggðarþingmenn býsnast yfir þeim tíma sem það gæti tekið að komast til og frá flugvelli sem staðsettur væri í útjaðri höfuðborgarinnar. Þá vil ég benda á þá þúsundir Reykvíkinga sem neyðast til að eyða tuttugu til þrjátíu mínútum í bíl sínum á hverjum einasta degi vegna þess að þeir eru neyddir til að búa uppi í ,,sveit” þar sem miðbærinn er undirlagður af flugvelli sem leggur undir sig landsvæði sem er jafnstórt að flatarmáli og Mónakó. Er tími þessara Reykvíkinga eitthvað síður mikilvægari heldur en þeirra sem búa á landsbyggðinni?
Það er sorglegt að að ný samgönguáætlun einkennist af kjördæmapoti og því hvaða landsbyggðarþingmaður náði best að ota sínum tota. Það er löngu orðið tímabært að höfuðborgarbúar fái réttlátan skerf að því fjármagni sem rennur til samgöngumála í landinu.
- Á diskinn minn - 31. júlí 2006
- Frjáls för verkafólks - 10. maí 2006
- Kapítalismi og fátækt - 11. febrúar 2006