„Þetta eru mikil mistök og hættuleg mistök. Í samningnum sem slíkum felst ekkert bjargráð, ekki neitt,“ sagði formaður Framsóknarflokksins í umræðum um EES-samninginn 24. ágúst 1992.
|
Með myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins hinn 30. apríl 1991 var endir bundinn á tuttugu ára ríkisstjórnarsetu Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hafði þá verið í ríkisstjórn samfellt í tvo áratugi, ef frá eru taldir nokkrir mánuðir sem minnihlutastjórn Benedikts Gröndal sat frá haustinu 1979 til vorsins 1980.
Viðeyjarstjórnin frá 1991 til 1995 var um margt merkileg ríkisstjórn. Þetta var fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar en afar hart var í ári á þessum tíma í íslenskum þjóðarbúskap. Þorskstofninn hrundi um líkt leyti og stjórnin tók við og afleiðingar sjóðasukks vinstristjórnarinnar frá 1988 til 1991 voru lamandi á allt atvinnulíf í landinu. Þarna voru stigin fyrstu skrefin í einkavæðingu, ríkisfjármál voru tekin föstum tökum eftir algjöra óstjórn Ólafs Ragnars Grímssonar, sársaukafullar en nauðsynlegar aðhalsaðgerðir áttu sér stað í heilbrigðiskerfinu og þannig mætti áfram telja. Ríkisstjórn þessi sýndi mikið pólitískt hugrekki og skirrtist ekki við að taka á erfiðum málum. Innanflokkserjur og klofningur í Alþýðuflokknum urðu þess hins vegar valdandi að ekki var fýsilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda samstarfinu áfram, þótt stjórnin héldi velli í kosningunum vorið 1995.
En stærsta mál Viðeyjarstjórnarinnar var vitaskuld EES-samningurinn sem samþykktur var sem lög frá Alþingi í janúar 1993. Ekki hafði verið samstaða í vinstristjórninni frá 1988 til 1991 um samninginn og því hefði hann ekki verið samþykktur ef sú stjórn hefði setið áfram. Viðeyjarstjórnin tryggði þannig þetta brýna framfaramál.
Þeir eru fáir í dag sem mæla EES-samningnum í mót. Hann hefur reynst afskaplega vel og átt mikinn þátt í að búa til þá velmegun sem nú ríki í íslensku samfélagi. Samningurinn var hins vegar afar umdeildur á sínum tíma og ekkert mál hefur verið meira rætt Alþingi frá stofnun lýðveldisins. Nútímalegu jafnaðarmennirnir Ólafur Ragnar Grímsson, þá formaður Alþýðubandalagsins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá þingmaður Kvennalistans, voru í hópi þeirra sem ekki vildu samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
En þeir voru fleiri. Framsóknarflokkurinn stóð fastur gegn samningnum og þar á bæ spöruðu menn ekki stóru orðin í umræðum um málið. Þáverandi formaður Framsóknarflokksins, Steingrímur Hermannsson, lét svo um mælt í ræðu sinni þann 24. ágúst 1992 þegar þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, hafði flutt framsögu um málið:
Nei, bjargráðið er ekki EES. Því fer víðs fjarri og það er hættulegt ef menn binda sig við það og telja að þar sé eitthvað sem bjargar íslensku þjóðfélagi. Nei. Ég ætla alls ekki að segja að utanrrh. sjálfur hafi fundið upp orðin ,,allt fyrir ekkert„. Hann notaði þau með ljóma í augum hér í fyrra. Það getur vel verið að einhver hafi komið þeim inn í hans háttvirta koll. En engu að síður finnst mér það oft liggja í orðunum að þarna fáist mikið fyrir lítið. Dettur mönnum það virkilega í hug að þarna fáist mikið fyrir lítið, svo ég taki nú kurteislega til orða?
Og nokkru siðar í ræðu sinni sagði Steingrímur:
Þáverandi formaður Framsóknarflokksins lauk svo ræðu sinni á þessum orðum:
Flokksbróðir Steingríms, Páll Pétursson, sem síðar varð ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 1995 til 2003, lét eftirfarandi ummæli falla í umræðunum degi eftir ræðu Steingríms:
Með samningi þessum opnast tvímælalaust tækifæri og bætt aðstaða fyrir þá sem ætla að flytja til meginlandsins en tvímælalaust er hann til óheilla fyrir marga þá sem eftir sitja og ætla að halda áfram að vera Íslendingar.“
Flokksbróðir þeirra Steingríms og Páls, Ólafur heitinn Þórðarson, þáverandi þingmaður Vestfirðinga, lýsti eftirfarandi skoðunum í ræðu sama dag:
[…]
Ég hef sagt úr þessum ræðustól: Vilja menn að mafían hafi frjálsa umferð um Ísland eins og henni sýnist? Ég veit að sumum finnst það alveg voðalegt að maður skuli segja svona lagað. Það vill nú samt svo til að mafían er á Ítalíu og Ítalía er hluti af þessu svæði.
[…]
Hvað tekur það langan tíma þangað til Íslendingar verða orðnir minnihlutaaðili í þessu landi ef við samþykkjum þetta? Hvað tekur það langan tíma þangað til það verða fleiri útlendingar í landinu en Íslendingar og hvaða afleiðingar á það eftir að hafa á viðhorf manna? Hvaða afleiðingar fylgja slíku yfirleitt þar sem það hefur gerst annars staðar? Vita menn það? Þar verða átök, þar verða kynþáttafordómar og þar verða deilur sem endar í blóðugum innbyrðis átökum. Ætla Þjóðverjar að bíða eftir því að Tyrkirnir verði fleiri í Þýskalandi en Þjóðverjar? Eru þeir að bíða eftir því? Ég held nú ekki. Þeir eru farnir af stað og byrjaðir að kveikja í flóttamannabúðunum og þeir hóta og hóta og hóta. Fólkið sem hefur leitað þar athvarfs getur ekki búið við öryggi stundinni lengur. Þeir vilja fá það út úr landinu vegna þeirra siða sem það hefur og þýska ríkið virðist ekki ráða við það að halda aga á þessu. Jú, jú. Þeir segja: Við setjum lög. Gott og vel. Þeir stoppa kannski Tyrkina með lögum. En þeir stoppa hvorki Spánverja, Portúgali eða Ítali með lögum.
[…]
Ég segi eins og er að þennan lið, b-liðinn, frjálsa fólksflutninga, tel ég gersamlega vonlaust að Íslendingar geti samþykkt. Liðirnir frjáls þjónustustarfsemi og frjáls flutningur fjármagns hafa nefnilega allt annað vægi ef frjálsir fólksflutningar fylgja með. Ef fjármagn kemur inn í landið án þess að fólk fylgi með, þá fylgir því fjármagni atvinna fyrir Íslendinga. En ef fjármagnið kemur inn í landið og jafnhliða þúsund Portúgalar til að vinna við að byggja álver og þúsund Spánverjar til að vinna við að virkja Fljótsdalsvirkjun, þá eru menn að tala um allt aðra hluti.
Eftirtaldir framsóknarmenn greiddu atkvæði gegn EES-samningnum þann 12. janúar 1993: Guðmundur Bjarnason, Guðni Ágústsson, Jón Helgason, Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Páll Pétursson, Stefán Guðmundsson og Steingrímur Hermannsson. Eftirtaldir framsóknarmenn sátu hjá: Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Jón Kristjánsson og Valgerður Sverrisdóttir.
Af þessum framsóknarmönnum eru fimm enn á Alþingi, þar af fjórir ráðherrar. Enginn þeirra studdi það þingmál sem reynst hefur einna heilladrýgst allra þingmála fyrir íslenska þjóð og þjóðarhag.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021