Níundi áratugur síðustu aldar í íslenskum stjórnmálum ætti að nefna áratug Steingríms Hermannssonar. Allan þann áratug sat Steingrímur sem ráðherra í alls fjórum ríkisstjórnum þar af voru tvær ríkistjórnir undir hans forsæti. Steingrímur gegndi þar fyrir utan embætti sjávarútvegs- og samgönguráðherra og utanríkisráðherra.
Alkunna er að áttundi áratugur fyrrgreindrar aldar hefur verið kenndur við Framsóknarflokkinn en þann níunda ætti að kenna við Steingrím öðrum mönnum fremur.
Og hvað gerðist markvert þennan áratug, sé stiklað á stóru og án mikillar nákvæmni?
Verðbólga náði hámarki á lýðveldistíma fór vel yfir 100 prósent, grunnur var lagður að núverandi kvótakerfi, verkfall opinberra starfsmanna, meiri verðbólga, verðtrygging lánsfjár, fleiri verkföll, uppgangur, þáttaka í Evrovision, samdráttur, verðbólga, verkföll, aflasamdráttur, niðurgreiðslur, bráðabirgðalög eftir bráðabirgðalög, sjónvarp á fimmtudögum, afsögn Alberts, vaxtafrelsi, gjaldþrot Hafskips, SÍS komst í þrot, umbylting á dómskerfinu og að lokum þjóðarsátt.
Holdgervingur þeirrar ríkishyggju og miðlægrar skipulagshyggju, sem áttundi og níundi áratugurinn einkenndist öðru fremur af, var skömmtun á niðurgreiddu lánsfjármagni, höftum og niðurgreiðslum og því að hygla flokksgæðingum á kostnað annarra. Stefnumörkun þjóðhags einkenndist öðru fremur af skammtímalausnum. Og hver var afleiðingin? Jú, viðskipti og athafnir voru að miklu leyti takmarkaðar við duttlunga löggjafar- og framkvæmdarvalds.
Þegar litið er til baka sætir það furðu að enginn hafi staðið upp og andmælt þessu kerfi. Sáu stjórnmálamenn ekki skóginn fyrir trjánum annað hvort meðvitað eða ómeðvitað? Eða var þetta bara laize faire til þess eins að halda völdum? Ofangreint skrifast að stóru leyti á Framsóknarflokkinn, þrátt fyrir að aðrir flokkar verði ekki hvítþvegnir í því sambandi.
Steingrímur Hermannsson naut þess þó að vera vinsælasti stjórnmálamaður meginhluta þessa tímabils. Almenningur kunni vel við hann að meginstefnu til, hann var maður fólksins. Steingrímur hikaði ekki við að viðurkenna opinberlega að honum hefði skjátlast í einstökum málum: ,,Ég var bara plataður” var haft eftir honum.
Steingrímur var maður sem naut vinsælda langt umfram kjörfylgi Framsóknarflokksins, um því er ekki neinum blöðum að fletta; hann var breyskur eins og aðrir menn en yfirleitt hreinskilinn og nýtti sér það óspart í stjórnmálalegum tilgangi. Þrátt fyrir geysimikið persónufylgi Steingríms þá naut Framsóknarflokkurinn þess takmarkað þegar kom að kosningum til Alþingis. En meirihluti kjósenda vildi hafa hann áfram sem forsætisráðherra 1991 skv. könnun sem gerð var fyrir kosningar það ár.
Halldór Ásgrímsson hefur ekki í embætti forsætisráðherra notið álíka persónufylgis og Steingrímur og hefur hingað til ekki náð þeirri stöðu landsföður-breysks þó- sem Steingrímur naut. Enda tilheyrir hann öðrum áratug og öðrum tíma sem ef til vill mætti kenna við staðfestustjórnmál, þar sem stjórnmálamönnum skjátlast ekki og viðurkenna ekki mistök.
Á tímum staðfestustjórnmála mætti núverandi forsætisráðherra þó taka sér Steingrím Hermannsson til fyrirmyndar að einu leyti. Næst þegar hann er spurður um aðild okkar á lista hinna staðföstu og aðdraganda Íraksstríðsins væri kjörið að segja bara: ,,Já, við vorum bara plataðir”, enda er Halldór vart eini þjóðarleiðtogi í heiminum sem svo er ástatt um. Og innan skamms er það einfaldlega gleymt og við getum haldið áfram.
Þrátt fyrir breytingar til batnaðar þar sem frjálsræði hefur stóraukist með ríkisstjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á sl. áratug, er það svo að undirritaður á erfitt með að treysta Framsóknarflokknum sé litið til sögu hans og þeirra áhrifa og hagsmuna víðsvegar sem hann hefur tryggt sér í gegnum setu í ríkisstjórnum, ríflega fjörutíu ár af þeim rúmlega sextíu sem liðin eru frá lýðveldisstofnun. Kannski er nærtækast að segja að flokkurinn minni oft á tíðum á kóralrif sem sést óglöggt, en getur þó valdið strandi.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007