Einkenni um heilkenni

sdfdÞað stendur skrifað að góður vinur haldi yfir þér hlífiskildi ef þú biður hann um það. Traustur vinur skýtur þér hins vegar í hvarf að þér forspurðum.

Heilinn á bak við stefnu flokksins í landbúnaðarmálum?

Gíslar bankaræningjanna í útibúi Kredit-bankans á Norrmaltorgi í Stokkhólmi árið 1973 sýndu einkennilega hegðun eftir að þeir losnuðu úr prísundinni eftir sex daga umsátur lögreglu. Í látunum höfðu fórnarlömbin myndað áður óútskýrð tengsl við þá sem héldu þeim gíslum og svo virtist sem þeir héldu hlífiskildi yfir misyndismönnunum við yfirheyrslur. Umbreyting fórnarlamba tók allri skynsemi fram. Síðar var rót athafna þeirra rakin tíl ríkrar þarfar til að ná félagslegum tengslum við misyndismennina og öðlast samúð þeirra í leiðinni. Þannig er Stokkhólmsheilkennið sálarkvilli sem veldur því að fórnarlömb mynda sérstakt samband við þá sem brjóta á rétti þeirra. Í verstu birtingarmynd kvillans halda fórnarlömbin hlífiskildi yfir gíslatökumönnum — og hjálpa þeim þannig að ná markmiðum sínum eða komast undan réttlátum dómi.

Framsóknarflokkurinn og bændaforystan eru órjúfanleg heild enda sækir flokkurinn fylgi sitt í ríkum mæli til sveita landsins. Þannig hefur áhersla á hagsmuni landbúnaðarins haldist þótt svo dregið hafi úr mikilvægi atvinnugreinarinnar og bændum fækkað hlutfallslega. Sökum þessa eiga sjónarmið bænda greiðari leið inn á borð landbúnaðarráðherra en sjónarmið alls þorra kjósenda.

Í ljósi þessa, er þá ekki fullkomlega eðlilegt að bændur haldi tryggð við flokkinn sinn? Hann hlýtur jú að tryggja þeim svo góða afkomu? — Varla! Þannig hefur skuldastaða sauðfjárbænda farið hríðversnandi að undanförnu eins fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar: árið 2003 var höfuðstóll sauðfjárbænda um 45% af eignum þeirra en var ríflega 60% áratug áður. Ekki er ástandið betra á meðal kúabænda: árið 1992 var höfuðstóll þeirra um 52% af eignum en var árið 2003 neikvæður um 3,8%.

Kannski er tryggðin til komin vegna þess að flokkurinn tryggir bændastéttinni svo glymrandi tekjur? — Varla! Meðalárstekjur almennra launþega árið 2003 námu um 2,3 milljónum króna skv. sömu skýrslu en meðalárstekjur bænda voru hins vegar rétt um 830 þúsund krónur eins og fram kemur í skýrslunni. Með öðrum orðum: árstekjur annarra stétta eru því að jafnaði þrisvar sinnum hærri en árstekjur bænda!

En kannski eru það þá bara neytendur sem eru að græða helling á öllu sjóðasukkinu? — Varla! Sé afurðaverð skoða sem hlutfall af innflutningsverði kemur í ljós að íslenskir neytendur eru dregnir á asnaeyrunum af landbúnaðarráðherra og bændastéttinni. Tölurnar tala sínu máli: verð á innlendri mjólk er 260% hærra en verð á sambærilegri innfluttri mjólk, verð á nautgripakjöti er 240% hærra en sambærilegur innflutningur og verð á eggjum er hvorki meira né minna en 300% hærra en verð á innfluttum eggjum, skv. tölum frá OECD sem birtust árið 2003.

Hér er ekki aðeins maðkur í mysunni — það eru asni, hundur, krummi og svín í henni! — en skv. nýjustu tölum nemur stuðningur við íslenska bændur í formi skattgreiðslna og tilfærslna frá neytendum ríflega 12 milljörðum króna á ári, eða um tveimur þriðju hlutum af tekjum bænda. 12.000 milljónir á ári! Setjum þetta í samhengi: áætlaður kostnaður Héðinsfjarðarganga eru 6-7 milljarðar. Hvernig er stemmningin fyrir því að ríkið grafi tvenn slík göng á ári næstu 30 ár?

Dræm?

Bændur geta ekki verið sáttir með ástandið, neytendur eru það svo sannarlega ekki en hvers vegna gerir enginn neitt? Jú, hann Guðni er nefnilega svo fyndinn og sniðugur.

Landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins, sem hafði m.a. það yfirlýsta hlutverk að fjármagna — lesendur, grípið í eitthvað naglfast! — lausafjárskuldir bændastéttarinnar.

En örvæntið ekki, börnin góð — það eru jákvæð teikn á lofti. Og þótt bændastéttinn hafi myndað sterk tengsl við flokkinn og haldið hlífiskildi yfir honum allt of lengi hníga öll rök að því að þeir losi sig endanlega úr prísundinni í næstu kosningum, enda eiga bændur hreinlega ekki annarra kosta auðið.

Önnur hegðun væri einkenni um heilkenni.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)