Í gærkvöldi var Árni Johnsen í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni og Evu Maríu Jónsdóttur í Kastljósinu. Af útliti Árna og framkomu mátti berlega sjá hversu erfiðir síðustu mánuðir hafa reynst honum og varla er betra í vændum ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að nýbirtar ákærur á hendur honum séu sannar.
Málflutningur Árna í þættinum var nokkuð ruglingslegur en þar reyndi hann að færa fram útskýringar á því hvað bjó að baki brotum hans. Auðveldlega má misskilja ýmis ummæli Árna á þann veg að hann hafi verið að afsaka gjörðir sínar en það var hann ekki að gera. Árni hefur ítrekað viðurkennt að hann hafi haft rangt við og lýst bæði eftirsjá og iðrun. Í þættinum í gærkvöldi var hann hins vegar að ræða málið til þess að varpa ljósi á hvað olli hinni óafsakanlegu hegðun hans. Vísast voru það mistök hjá Árna að mæta í þennan þátt í gær og best að bíða niðurstöðu dómstóla varðandi málið áður en hann lætur nokkuð frá sér um það. En varla hefur hann átt von á þeim rannsóknarrétti sem hann var leiddur fyrir í sjónvarpssal í gær.
Þau Kristján og Eva María, sem bæði eru afbragðsþáttastjórnendur og án efa hið besta fólk, tóku þann pólinn í hæðina að setjast í stól dómara og gera það sem þau gátu til þess reka garnirnar úr Árna. Þetta tel ég hafa verið ódrengilegt af þeim og fullkomlega óþarft, enda var það augljóst á Árna að hann er bugaður og niðurlægður maður – varla skugginn af sjálfum sér. Ef Árni væri jafnforhertur og sumir vilja vera láta þá sæi sennilega ekki högg á vatni. En Árni iðrast bersýnilega gjörðir sínar, þótt hann, eins og allir aðrir sem staðnir eru að óheiðarleika, telji sig hafa einhverjar ástæður og jafnvel málsbætur. Aðgangsharka Kristjáns og Evu Maríu var að mínu mati misráðin.
Flestum þykir það hið mesta óþokkabragð að sparka í liggjandi mann. Að minnsta kosti er það ákaflega inngreipt í huga mér að slíkt athæfi sé með því ódrengilegasta sem hugsast getur. Að sama skapi hefur mér alltaf þótt hæfileikinn til að fyrirgefa frekar vera merki um styrk heldur en veikleika.
Að öllum líkindum verður Árna refsað af dómstólum fyrir misgjörðir sínar og enginn þarf að velkjast í vafa um að sú refsing er aðeins lítill hluti af því sem hann þarf að ganga í gegnum vegna brota sinna. Og Árni á vissulega skilið að honum sé refsað – en sú refsing verður að eiga sín endimörk og það eru óæðri hvatir sem reka fólk til þess að velta sér upp úr vanlíðan fólks og auka á þær með hefndarþorsta og vandlætingu.
Það er haft eftir manni, sem mörgum hefur þótt ráðhollur, að mönnum beri að gæta sín á dómhörkunni. “Hafið gát á sjálfum ykkur. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum,” sagði hann. Þetta ætti fólk að hafa hugfast áður en það leyfir sér að hlakka yfir vanlíðan fólks sem verður á í messunni. Það að fyrirgefa manni misgjörð er ekki hið sama og að fyrirgefa misgjörðina sjálfa.
Árni Johnsen mun taka út sína refsingu. Það er sanngjarnt, eðlilegt og í raun nauðsynlegt. Þeir sem ekki hafa það í sér að sýna iðrandi manni samúð vinna í raun gegn þeirri grundvallarhugmynd að refsingar þjóni þeim tilgangi að menn bæti fyrir misgjörðir sínar. Eða til hvers að sæta refsingu – og til hvers að iðrast – ef það hefur engin áhrif á viðhorf samfélagsins gagnvart viðkomandi – ef enga fyrirgefningu er að fá? Er það þá kannski rétt að misgjörðamenn ættu einfaldlega að varpa sér fyrir björg?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021